þriðjudagur, 26. október 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frá loðnubresti í tæp milljón tonn

Svavar Hávarðsson
10. október 2021 kl. 08:00

Síðastliðinn vetur var allri loðnu landað til manneldisvinnslu en þar eru hrognin verðmætust.Mynd/HARI

Ráðgjöf um 904.200 tonna loðnuveiði

Hafrannsóknastofnun kynnti fyrir síðustu helgi veiðiráðgjöf sína um aflamark loðnu fyrir komandi vertíð. Haustráðgjöfin hljóðar upp á rúmlega 904.000 tonn. Hrygningarstofninn er metinn 1,8 milljónir tonna og ekki loku fyrir það skotið að veiðiheimildir endi norðan við milljón tonna markið enda mun Hafrannsóknastofnun ljúka rannsóknum sínum á fyrstu mánuðum næsta árs og lokaniðurstaða veiðiráðgjafar stofnunarinnar ekki verða ljós fyrr en þá.

Væntingar um góðan upphafskvóta í loðnu kviknuðu við upphafsráðgjöf Hafró í fyrra. Þá var gefin út hæsta ráðgjöf sem gefin er út svo löngu áður en veiðar hefjast, eða 400.000 tonn. Þær rættust vægast sagt, en Hafrannsóknastofnun leggur til, í samræmi við aflareglu strandríkja, að afli fiskveiðiárið 2021/2022 verði 904.000 tonn. Þá er ekki endilega allt talið þar sem haustráðgjöf er að ræða en ráðgjöfin verður endurmetin í kjölfar mælinga á stærð veiðistofnsins í byrjun árs 2022. Því er ekki loku fyrir það skotið að loðnuvertíðin verði rúmlega milljón tonn og má heita með ólíkindum miðað við tveggja ára loðnubrest nýliðinna ára.

Búhnykkur

Hér flýgur í huga flestra þau verðmæti sem um er að ræða náist að veiða þetta gríðarlega magn. Til þess að það náist þarf flest að ganga upp, og sérstaklega þarf veður að vera hagstætt þegar veitt er til frystingar og hrognatöku.

Fljótt á litið koma um 660 þúsund tonn í hlut íslenskra útgerða. Það er að segja 80% af ráðgjöfinni, að frádregnu því sem við greiðum öðrum þjóðum samkvæmt gildandi samningum. Hlutur Norðmanna er þar langstærstur og veiða líklega 85.000 tonn af því magni sem nú gildir ráðgjöf um.

Hversu mörgum tugum milljarða vertíð af þessari stærðargráðu skilar til íslensks samfélags er erfitt að segja nokkuð til um. Að áætla slíkt er auðvitað aðeins samkvæmisleikur en ljóst að 60 til 70 milljarðar má telja raunhæfar væntingar. Til samanburðar hljóðaði ráðgjöf síðasta árs upp á 128.000 tonn og veiddu íslensku skipin rúm 70.000 tonn. Það var útgerðinni kærkomið eftir tveggja ára loðnubrest enda var hvert gramm unnið til manneldis og útflutningsverðmætin um 20 milljarðar króna.

1,8 milljón tonn

Samkvæmt mælingu Hafrannsóknastofnunar í haust er hrygningarstofn loðnu metinn rúmlega 1,8 milljónir tonna. Ráðgjöf um aflamark byggist á því að 95% líkur séu á að hrygningarstofninn í mars verði yfir 150.000 tonnum. Vísitala ókynþroska loðnu, sem er eins og tveggja ára loðna, er sú þriðja hæsta frá upphafi mælinga.

Til viðbótar þessu kom fram í máli sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar þegar ráðgjöfin var kynnt að væntingar um loðnuveiði 2022/2023 eru einnig prýðilegar, og vonir eru um að loðnustofninn hafi verulega rétt úr hryggnum. Stór loðnuganga inn í íslenska lögsögu séu ekki einungis góðar fréttir þegar kemur að veiðiskap heldur einnig fyrir afkomu annarra nytjastofna.

„Þetta eru ekki bara góðar fréttir þegar kemur að veiðimöguleikum, heldur líka fyrir lífríkið því ekki skal gleyma að loðnan er ein mikilvægasts fæðutegund svo margra nytjastofna hér í okkar lögsögu. Loðna sem er búin að vera vaxa upp við austur Grænland er að koma með ótrúlega mikla orku inn í okkar kerfi. Bæði til að fæða aðra stofna en einnig þegar hún drepst eftir hrygningu,“ sagði Þorsteinn Sigurðsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, og bætti við að ráðgjöf fyrir vertíðina 2022/2023 verður gefin út fyrir áramót. Gögn benda eindregið til þess að þá verði gefið út upphafsaflamark eins og í fyrra.

„Vonandi erum við að sjá einhverjar varanlegar breytingar þegar kemur að loðnunni, þrátt fyrir að hún hafi ekki sýnt breytingar í útbreiðslu eins og hún var áður en hún hörfaði yfir á svæðið við austur Grænland,“ sagði Þorsteinn.

Kaldari sjór

Birkir Bárðarson, leiðangursstjóri í septemberleiðangri Hafrannsóknastofnunarinnar, sagði í viðtali við Fiskifréttir, ekkert hægt að fullyrða um það hvað veldur sveiflum á loðnustofninum frá ári til árs, en einhverjir umhverfisþættir hljóti þó að liggja að baki.

„Núna í sumar hefur verið óvenju mikil útbreiðsla á köldum sjávarmössum fyrir norðan land, og það má velta fyrir sér hvaða tengsl eru þar. Að minnsta kosti hafa greinilega komið upp aðstæður sem gefa góða nýliðun.“

Hann nefnir að loðnan sem fannst í leiðangrinum hafi virst vera aðeins seinna í kynþroska heldur en undanfarin ár á þessum árstíma.

„Hún er að þroska egg og svil aðeins hægar og það getur verið áhugavert. Það má velta fyrir sér hvort það sé ekki tengt stærð árgangsins, það er að þéttleikinn hafi áhrif á fæðuframboð, en svo er líka spurning um í hvaða umhverfi hún hefur verið. Hvort hún hafi verið í kaldari sjó en áður.“