föstudagur, 18. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fráleitt að gefa rækjuveiðar frjálsar

2. október 2009 kl. 12:00

,,Við erum afar ósáttir við þær hugmyndir sem viðraðar hafa verið að gefa úthafsrækjuveiðar frjálsar á þeirri forsendu að kvótinn hafi ekki náðst á undanförnum árum, segir Ólafur H. Marteinsson framkvæmdastjóri Ramma hf. í samtali við Fiskifréttir, en sjávarútvegsráðherra greindi frá því í Kastljósþætti í síðustu viku að hann væri með þessi mál til skoðunar.

Ólafur bendir á að nýlega hafi rofað til í rækjuveiðunum eftir margra ára lægð og Rammi sé byrjaður að gera út á rækju á ný og hafi ráðist í byggingu nýrrar rækjuverksmiðju á Siglufirði.

,,Allur rækjukvóti okkar var á sínum tíma keyptur fyrir peninga og sumt af því fé var tekið að láni. Við höfum þurft að greiða af þessum lánum þótt engin væri rækjuveiðin og nú þegar forsendur skapast til að hefja rækjuútgerð að nýju er sjávarútvegsráðherrann að velta því fyrir sér að taka af okkur kvótann, skilja okkur eftir með skuldirnar og hleypa að einhverjum öðrum sem jafnvel keyptu af okkur skipin sem við þurftum að selja fyrir slikk. Svona málsmeðferð gengur auðvitað ekki upp,” sagði Ólafur.

Sjá nánar viðtal við Ólaf í nýjustu Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag og einnig umfjöllun og vannýttar og ofnýttar kvótategundir.