mánudagur, 24. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framför í meðferð strandveiðiafla

17. september 2011 kl. 11:03

Strandveiðar. Afla landað á Fáskrúðsfirði. (Mynd: Óðinn Magnason).

Matís gerir úttekt á aflameðferð og gæðum afla strandveiðibáta.

Sjávarútvegsráðherra kynnti í gær skýrslu Matís um gæði strandveiðiafla 2011. Í frétt á vef ráðuneytisins segir að niðurstöður skýrslunnar sýni framför í meðferð og kælingu afla strandveiðibáta. Skýrsluhöfundar telja að strandveiðiflotinn standist í þeim efnum samanburð við hina hefðbundnu dagróðrabáta.

Þá er blóðgun strandveiðiafla talin fullnægjandi að mati kaupenda. Það að aflinn er með góðu lífsmarki þegar hann kemur um borð stuðlar að því að fiskurinn blóðtæmir sig vel.

Aftur á móti er stærðarflokkun strandveiðiaflans ófullnægjandi, talsvert er um hringorm og þaraþyrskling í afla sem dreginn er svo nærri landi og bæta má verulega úr röðun og frágangi í ker hjá strandveiðibátum og sama gildir um aðra dagróðrabáta.
Skýrsluhöfundar benda á að setja þurfi skýrari reglur um slægingu strandveiðiafla og leggja áherslu á bætta meðferð með aukinni fræðslu, að bannað verði að fara íslaus á sjó og að áfram verði lögð áhersla á mælingar og eftirlit.

Auk Matís komu að gerð skýrslunnar Fiskistofa, Matvælastofnun og sjávarútvegsráðuneytið. Skýrsluna er að finna á vef ráðuneytisins.