þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framganga fyrirtækjanna sögð skipta máli

Guðsteinn Bjarnason
4. apríl 2020 kl. 09:00

Frá Vestmannaeyjahöfn. Myndin tengist ekki efni fréttarinnar. Mynd/Óskar P. Friðriksson

Óvissan í sjávarútvegi var til umræðu á miðvikudagsfundum SFS

Heiðrún Lind segir fyrirtæki gera mistök og gagnsæið þurfi að auka. Sveinn Agnarsson segir framferði fyrirtækja geta vakið ólgu og Pétur H. Pálsson auglýsir eftir umræðu um eigendurna.

„Við getum alltaf gert betur,“ sagði Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, á fyrsta fundinum í fundaröð samtakanna fyrir skemmstu, sem efnt var til undir yfirskriftinni Samtal um sjávarútveg.

Á þessum fyrsta fundi var umfjöllunarefnið gagnsæi í sjávarútveginum og Heiðrún vakti þar athygli á því að traust fari þverrandi meðal almennings. Kannanir frá Gallup staðfesti það meðal annars, og nefndar hafi verið ástæður á borð við: „Misnotkun persónulegra og viðskiptalegra upplýsinga, það sem nefna má skandala, saksókn gegn áberandi fólki í viðskiptalífi, dómar gegn áberandi fólki í viðskiptalífi, villandi upplýsingar, fake news. Allt leggst þetta á þá sveif að traust fer þverrandi.“

Hún sagði vel mega „spegla þetta á íslenskt atvinnulíf og íslenskan sjávarútveg. Við eigum bara að tala hreint út um það og segja: Ókei, hvernig byggjum við upp traust? Í hvaða vegferð þurfum við að fara til að snúa þessu við?“

Hún sagði að þar hlyti gagnsæi í atvinnugreininni að skipta miklu máli. Fyrirtækin þurfi að vera „opin og upplýsandi um starfsemi sína, um frammistöðu sína, um tekjur, um starfshætti, verðlagningu, stefnu og gildi. Ekki síður þegar hlutir fari úrskeiðis.“

Hún sagði engan vera fullkominn: „Manneskjur gera mistök á hverjum einasta degi. Fyrirtæki gera mistök á hverjum einasta degi. Við eigum að geta talað um það opinskátt. Þetta hefur alltaf verið mikilvægt en ég held að akkúrat núna á þessum tímum, í svona ákveðnu yfirflæði á upplýsingum, þá krefst einfaldlega almenningur þess að samskiptin séu meiri frá fyrirtækjum og gagnsæið sé meira. Þannig að fyrirtæki sem ætla ekki að sinna þessu ákalli almennings þau verða undir.“

Geta skapað óróleika

Á þessum miðvikudagsfundum var nokkuð oft komið inn á þá óvissu sem greinin má búa við, og var þá ekki eingöngu átt við óvissu í vistkerfi hafsins heldur ekki síður þá óvissu sem útgerðinni stafar af stjórnmálaumræðunni hverju sinni.

Sveinn Agnarsson, prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands, gerði þessa óvissu að umræðuefni á þriðja fundinum, þegar rætt var um það hvernig auðlindin skilar mestum ábata til samfélagsins. Sveinn Agnarsson lagði þar mikla áherslu á stefnufestu í stjórn fiskveiða, en sagði jafnframt að hvernig svo sem stefnu í stjórn fiskveiða er háttað þá þá sé vandinn sá að útgerðir í landinu og sjávarútvegsfyrirtæki muni „aðlaga sig að þeirri stefnu með tíð og tíma. Og með tíð og tíma þá mun þessi aðlögun verða til þess að afkoman batnar. Og þegar afkoman fer að batna þá fara að heyrast raddir um að það gangi of vel og það þurfi að breyta um stefnu. Þetta er hættulegt vegna þess að allar atvinnugreinar byggja á langtímahugsun. Fyrirtækin þurfa að búa við sem mesta óvissu. Það er nóg óvissa í lífríki hafsins fyrir sjávarútvegsfyrirtækin að glíma við. Það er hins vegar óþarfi að búa til of mikla óvissu í stjórn fiskveiða.”

Í beinu framhaldi af þessu vék Sveinn svo að hlutverki fyrirtækjanna sjálfra gagnvart slíkri óvissu.

„Fyrirtækin verða þá að hegða sér þannig að þau bjóði ekki upp á eða ýti undir að það skapist einhver umræða í samfélaginu um að það sé nauðsynlegt að breyta um stefnu. Þannig verður framferði fyrirtækjanna líka að snúast um það að vera með langtímahugsun. Við skulum hafa í huga að það er ekki eingöngu stjórnarskipti eða ný stefna sem getur skipt máli í sjávarútvegi. Það er líka umtal sem getur skapað óróleika í samfélaginu, óróleika í rekstrarumhverfi sjávarútvegsfyrirtækja. Þennan óróleika þurfum við að minnka og það eru bæði stjórnvöld og fyrirtækin sem hafa hlutverki að gegna í þessu sambandi.”

Lýsir eftir umræðu um eigendur

Á sama fundi sagðist Pétur Hafstein Pálsson, framkvæmdastjóri Vísis hf. í Grindavík, sannfærður um að almennt sé fólk hér á landi orðið sammála um það „hvernig við búum til pening úr auðlindinni. Sammála um að það er varla hægt að gera betur. Umræðan er hætt að snúast um kerfin, hún er farin að snúast um eigendurna.“

Þegar umræðan snýst um fyrirtækin þá er verið að skapa meiri óvissu með hugmyndum um uppboð, kerfisbreytingar eða meiri álögur. Slík umræða komi „beint niður á rekstri fyrirtækjanna og menn fara að haga sér í samræmi við það.“

Umræða um eigendurna snúist miklu síður um það sem er að gerast í fyrirtækjunum sjálfum.

„Það er ekki sama umræða um eigendur og fyrirkomulag eignarhalds í sjávarútvegi eins og umræðan um að breyta kerfinu og leggja á álögur. Þannig að ég lýsi svolítið eftir þeirri umræðu.“