föstudagur, 23. júlí 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framtíð greinarinnar í húfi

Guðjón Guðmundsson
8. maí 2021 kl. 09:00

Um 50 manns störfuðu hjá fyrirtækinu þegar tókst að halda uppi fullri sæbjúgnavinnslu. Núna eru 15-20 manns í fastri vinnu yfir árið. Aðsend mynd

Frumvarp um kvótasetningu á sæbjúgum fast í atvinnuveganefnd.

Fyrir tveimur árum var heildarafli sæbjúgna af Íslandsmiðum um 6.000 tonn. Á þessu ári eru gefin út leyfi til veiða á 2.200 tonnum. Þegar best lét velti greinin 1,5-2 milljörðum króna og tekjur ríkissjóðs af henni námu mörg hundruð milljóna króna. Eitt þeirra fyrirtækja sem hve lengst hefur stundað veiðar og vinnslu á sæbjúgum og byggir afkomu sína að langmestu leyti á þessari tegund, er Hafnarnes-Ver í Þorlákshöfn.

Ólafur Hannesson framkvæmdastjóri var með erindi í huga þegar blaðamann bar að garði enda margt sem hvílir á þessum unga og atorkusama rekstrarmanni. Megnið af starfsmönnunum að hætta um næstu mánaðamót vegna verkefnaleysis í lok vetrarvertíðar og samdrátts í sæbjúgnaveiðum og baráttan endalaus við kerfið. Fyrir liggur vilji hagsmunaaðila og stjórnkerfisins um að kvótasetja sæbjúgnaveiðar en frumvarp þar um situr fast í atvinnuveganefnd. Á síðasta ári dróst sala á afurðum fyrirtækisins saman um 700 milljónir, að langmestu leyti vegna minni veiða á sæbjúgum.

Um 50 manns störfuðu hjá Hafnarnesi-Ver þegar fyrirtækinu tókst að halda uppi fullri sæbjúgnavinnslu. Núna eru 15-20 manns í fastri vinnu yfir allt árið.

Úr 3.800 tonnum í 1.200

„Þegar best lét vorum við að vinna um 3.800 tonn af sæbjúgum en þetta er komið niður í um 1.200 tonn hjá okkur. Það hefur augljóslega áhrif á það hve marga við getum haft í vinnu. Það þungbærasta við þetta allt saman er að sjá á eftir svo mörgu góðu fólki sem hefur unnið hjá okkur bæði á landi og á sjó, “ segir Ólafur.

Hafnarnes-Ver hóf veiðar og vinnslu á sæbjúgum árið 2008 og er eina fyrirtækið sem hefur enst í þessari grein öll þessi ár. Ólafur segir gott samstarf milli þessara aðila í glímunni við stjórnkerfið. En þar er við ramman reip að draga.

Stýring veiðanna var með þeim hætti að ákveðið magn mátti veiða innan skilgreindra svæða en frjálsar veiðar voru utan þeirra. Veiðarnar gengu vel og fyrirtæki eins og Hafnarnes-Ver fundu ný mið sem gáfu mikið af sér. Ólafur segir að fyrirtækið hafi sinnt þessu í hátt í áratug áður en veiðarnar og vinnslan voru farin að skila arðsemi. Veiðin jókst jafnt og þétt vegna þess að markaðir fyrir afurðirnar voru að byggjast upp. Árið 2018 lagði Hafrannsóknastofnun til skerðingar á sæbjúgnaveiðum og í stað frjálsra veiða utan skilgreindra hólfa þyrfti að sækja um leyfi til tilraunaveiða. Í hólfunum mátti nú veiða að hámarki 50 tonn. Fram að þessu hafði uppistaðan í aflanum einmitt fengist utan skilgreindu svæðanna.

Vantar rannsóknir

„Reglugerðabreytingarnar voru aldrei unnar í samvinnu við okkur. Við höfum alltaf sagt að draga mætti úr því magni sem er veitt en best yrði að gera það í skrefum þannig að við fengjum tækifæri til að aðlagast nýrri stýringu. Hafró hefur farið fram með mikilli verndarstefnu og hefur þrengt verulega að veiðunum þrátt fyrir að litlar sem engar rannsóknir liggi fyrir á þessu sviði. Við höfum kallað eftir því í mörg ár að frekari rannsóknir fari fram. Við höfum boðið fram bátana okkar og aðgengi að vinnslu. Við höfum jafnvel boðist til að þátt í kostnaði við rannsóknir. Á það að bitna á okkur að stjórnkerfið hafi ekki haft vilja til þess að setja í gang rannsóknir? “ spyr Ólafur.

Allir sammála um kvótasetningu

„Það hefur verið dregið svo úr aflamarki að þeir sem stunda þessar veiðar klára veiðarnar á einum mánuði eða tveimur. Í september 2019 var fyrst sett aflamark upp á 2.200 tonn og veiðin úti fyrir Vestfjörðum kláraðist á fyrstu tveimur vikunum. Allur kvótinn kláraðist svo í nóvember. Utan svæðanna má mest veiða 50 tonn í hverju hólfi og það er kannski tveggja til þriggja daga veiði hjá einum bát þegar vel gefur. Við höfum verið boðnir og búnir að aðstoða við rannsóknir á sæbjúgum. Við höfum sinnt tilraunaveiðum um allt land því það er okkar hagur að finna ný svæði. Stofnanirnar; Fiskistofa, Hafrannsóknastofnun og sjávarútvegsráðuneytið hafa viðurkennt að þau ráða ekki við að stýra veiðunum. Afkastageta bátanna er svo mikil að þeir ná að veiða hólfin áður en ákvörðun er tekin um að loka þeim. Á þessum tímapunkti tóku útgerðirnar sig saman og skiptu sjálfar á milli sín aflamarkinu eftir veiðireynslu og veiddu ekki umfram það. Við þurftum því að leysa vandamál fyrir stjórnkerfið sem það hafði sjálft skapað. Útgerðirnar allar eru núna sammála um það að kvótasetja verður veiðarnar. Það sé eina leiðin sem virki með því magni sem til boða stendur,“ segir Ólafur.

Með því móti er hægt að skipuleggja veiðarnar og halda heilsársstörfum ef hægt er að dreifa veiðunum yfir allt árið. Hagkvæmara sé að hafa eina áhöfn í fullu starfi en tvær áhafnir í hlutastarfi. Nú er staðan sú að hagsmunaaðilar og stjórnkerfið eru sammála um að kvótasetja veiðarnar.

„En þá kemur að stóra vandanum sem er Alþingi. Frumvarpið hefur setið fast í atvinnuveganefnd síðan það var lagt fyrir nefndina í janúar. Ástæðan er sú að þetta mál sem allir eru sammála um er spyrt saman við kvótasetningu grásleppu sem allir eru ósammála um. Ráðuneytið hefur ekki ljáð máls á því að breyta frumvarpinu og þannig stendur málið. Ef greinin á að lifa verður að koma á þessum breytingum sem felast í frumvarpinu.“