þriðjudagur, 2. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framtíðareftirlit í mótun

Guðsteinn Bjarnason
13. mars 2020 kl. 11:39

Eftirlit með fiskveiðum endurskoðað í Noregi. Mynd/Tryggvi Sveinsson

Allsherar endurskoðun eftirlitskerfisins í Noregi

Norsk stjórnvöld eru að móta framtíðarstefnu fyrir eftirlit í sjávarútvegi þar sem notast yrði við sjálfvirka gagnaöflun og -úrvinnslu í stórum stíl.

Starfshópur skilaði af sér ítarlegri skýrslu til norska sjávarútvegsráðuneytisins í lok nóvember eftir að hafa unnið að málinu í hálft annað ár.

Hugmyndir hópsins ganga út á að koma á samstarfi stjórnvalda og greinarinnar um sjálfvirka gagnasöfnun frá veiðum, löndun, vinnslu og sölu. Allsherjar endurskoðun er í undirbúningi.

„Mikið af þeirri tækni sem til þarf er nú þegar til og ný tækni er í þróun,“ segir í skýrslunni.

Kleift verður að ná jafnóðum í staðfestar upplýsingar meðal annars um útgerð og einstök skip, hvað er veitt og hvar, veiðiheimildir og landanir, umhverfisspor, hitastig og gæði hráefnis.

„Nefndin telur vel mögulegt að þróa stafrænar lausnir sem samþætta ólíkar gagnauppsprettur í heildstæðu og sjálfvirku gagnakerfi, þar sem staðfestar upplýsingar verða gerðar aðgengilegar þeim sem málið varðar, ýmist með opnum gögnum, lagafyrirmælum eða samþykki.

Veikleikar i kerfinu

Skýrsluhöfundar rekja tildrög vinnunnar meðal annars til þess að árið 2013 hafi sterkur orðrómur verið um að lögbrot hafi verið algeng í norskri útgerð. Í framhaldi af því var ráðist í að gera spurningakannanir meðal útgerðarmanna, sjómanna og kaupenda. Niðurstöðurnar urðu þær að 40 prósent sögðu almennt viðurkennt að ekki væri alltaf vandað til verka þegar kæmi að skráningu, og 60 prósent sögðu vita til þess að afli væri vanskráður. Þá sögðust 40 prósent aðspurðra, í annarri könnun sem gerð var um svipað leyti, telja að brottkast og röng skráning geti verið réttlætanleg „af og til“.

„Þrátt fyrir að þessar kannanir bendi til þess að vanskráning eigi sér stað, þá uppgötva eftirlitsstofnanir sjaldan alvarleg brot,“ segir í skýrslunni.

Skýrsluhöfundar benda á helstu veikleikana í eftirlitinu, og nefna þar skort á gögnum sem hægt er að sannreyna, veikleika í úrvinnslu upplýsinga og skipulagningu eftirlitsins, auk þess sem ýmsir veikleikar sé að finna í löggjöfinni.

„Þegar upp kemst um brot á reglunum þá gerir óvissan í gagnagrunnum það að verkum að erfitt reynist að sannreyna staðreyndir um umfang og alvarleika brotanna,“ segir í skýrslunni. Veikleikar í eftirlitinu og skipulagi þess grafi einnig undan tiltrú manna til regluverksins.

Úr þessu á að bæta með allsherjar endurskoðun á lögunum, eftirlitinu og gagnavinnslu í norskum sjávarútvegi.

„Tillögurnar munu draga úr möguleikum þeirra sem reyna að auka hagnað sinn með því að gefa vísvitandi upp ófullnægjandi skráningu og auka gæðin á skráðum gögnum,“ segir í skýrslunni. „Þegar komið er upp um lögbrot þá mun sjálfvirkt skráningarkerfi líka skilja eftir sig sjáanleg spor sem nota má sem sönnunargögn í dómsmáli.“