laugardagur, 6. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Framtíðarskipið Útópía

Guðjón Guðmundsson
28. nóvember 2019 kl. 07:00

Alfreð kom víða við í erindi sínu og fjallaði bæði um hugmyndir sem þegar er unnið að og aðrar sem komu fundargestum skemmtilega á óvart. Mynd/Alfreð

Húsdýravæðing og smölun fisks með neðansjávarförum

Skip framtíðarinnar fullvinnur aflann til manneldis með flökun, skammtaskurði, skammtavigtun, frágangi í neytendapakkningar, er búið AEF frystingu með hljóðbylgjum, aðstöðu til niðursuðu á lifur, hrognum og svilum í neytendapakkningar um borð og framleiðir gæludýrafóður úr fiskmjöli. Heilsu- og snyrtivöruiðnaðurinn kemur til með að kalla eftir meira hráefni til framleiðslu á kollageni og ensímum. Með þessu móti yrði hráefnið fullnýtt. Framtíðarskipið er hugarfóstur Alfreðs Tulinius skipahönnuðar.

Alfreð kallar skipið Útópíu og sagði í skemmtilegu erindi á Sjávarútvegráðstefnunni að skipið yrði alltaf útópía í óbreyttu rekstrarumhverfi.

Í breyttu rekstrarumhverfi fælist, að mati Alfreðs, endurskoðun á kjarasamningum sjómanna sem kveða á um 42% af aflahlutdeild. Varðandi togskip þyrfti að leysa tæknimál svo hægt væri að taka aflann lifandi um borð þar sem honum er slátrað rétt fyrir vinnslu. Alfreð vék að frystiaðferð sem verið er að þróa í Rússlandi sem nýtir lágtíðnihljóð til frystingar sem breyti í grundvallaratriðum frystiafurðinni á þann veg að kristallar myndast ekki í fiskholdinu sem skemma það.

40-50% hagræðing hafi orðið í rekstri togaraflotans á síðustu árum með afkastaaukningu og minnkandi orkunotkun í skipunum. Þegar svo mikill árangur hafi náðst verði þrengra um vik að knýja fram frekari árangur. Alfreð segir að miðað við þau tæki og búnað sem nú er notaður við veiðarnar sé svigrúm til aukinnar hagræðingar vart meiri en 5%.

Aðferðir úr náttúrunni?

„Hver segir að sniðugasta lausnin á veiðum sé að draga mismunandi innkaupapoka á eftir sér og vonast til þess að innkoman sé góð af þeirri tegund sem sóst er eftir? Gæti verið mögulegt að horfa til tækni sem hvalir og höfrungar nota til veiða á fisk? Hún felst einfaldlega í loftbólumyndun í kringum fiskinn. Er mögulegt að sjá fyrir sér að uppsjávarveiðar hætti að verða með þeim hætti að flottroll sé dregið á eftir skipinu? Í stað þess verði fisknum smalað saman þar sem sleginn verður um hann hringur með hefðbundnum nótabúnaði eða honum beinlínis dælt strax um borð? Það má sjá fyrir sér að nota megi neðansjávardróna í loftbólusmölun á fisk. Er hugsanlega líka möguleiki að við húsdýravæðum fiskinn í sjónum? Smalað verði eftir þörfum, dregið í dilka? Getum við mögulega lokkað fiskinn á einn stað með hljóðmerkjum þar sem við getum gengið að honum vísum? Er hægt að tæla hann með ætisveislu á ákveðinn stað? Tælingarmáttur við veiðar er notaður daglega með krókaveiðum, línuveiðum og gildruveiðum þar sem við beitum fyrir fiskinn og hann er tældur,“ sagði Alfreð.

Hann segir gagnrýna hugsun nauðsynlega. Menn megi alveg spyrja sig hvort þær aðferðir sem notaðar eru í dag séu endilega þær bestu.

Þarf að vera á yfirborði sjávar?

„Þurfum við yfirleitt að vera á yfirborði sjávar til þess að stunda okkar veiðar? Það er alveg vert að spyrja þeirrar spurningar hvort við þurfum yfirleitt að ferðast á yfirborði sjávar? Það er óþægilegt fyrir menn og afla og það krefst meiri orku að vera ofansjár en neðansjávar. Með nýjum orkugjöfum má vel hugsa sér að við förum undir yfirborðið við veiðar eða smölun. Persónulega tel ég að til framtíðar standi okkur til boða tveir orkugjafar. Vetni í föstu formi til upplausnar um borð í skipum fyrir efnarafal eða til brennslu fyrir raforkuframleiðslu um borð. Kjarnorka og ég veit að ykkur bregður núna. En kjarnorka er hlutur sem er ekki hægt að horfa fram hjá. Það eru í þróun kjarnaofnar og sé ég fyrir mér að framtíðarskipið verði knúið kjarnaofni til 20-30 ára sem er hættulaus. Honum er síðan skipt út fyrir aðra einingu ef skipið stenst tímans tönn. Framleiðsla á rafmagni verður mögulega með vindorku eða hreyfingum skipsins, þ.e.a.s. ef við verðum áfram á yfirborði sjávar. Þetta eru allt hlutir sem við þurfum að skoða. En hvernig sem öllu er á botninn hvolft þá eru tækifærin ómæld. Það eina sem við þurfum að gera er að horfa út fyrir borðstokkinn,“ sagði Alfreð.