laugardagur, 29. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fréttaskýring: Norðmenn taka sér einhliða makrílkvóta

13. apríl 2009 kl. 11:46

á sama tíma og þeir gagnrýna Íslendinga fyrir óábyrgar veiðar

Á sama tíma og Norðmenn saka Íslendinga um óábyrgar veiðar á makríl sem gengur inn í íslenska lögsögu og segja að með því séu þeir að setja makrílstofninn í hættu hafa þeir nú úthlutað sjálfum sér einhliða 70.000 tonna viðbótarkvóta á þessu ári.

Makrílkvóti Norðmanna eykst því úr rúmlega 120 þús. tonnum í fyrra í 191 þús. tonn í ár.

Johan Williams talsmaður norska sjávarútvegsráðuneytisins gefur þá skýringu í samtali við sjávarútvegsvefinn IntraFish að þessi einhliða kvóti sé settur með hliðsjón af samkomulagi Noregs, Færeyja og ESB  frá því í fyrra. Þetta sé svar Norðmanna við veiðikvóta sem Evrópusambandið hafi sett sér einhliða síðastliðin átta ár úr svokölluðum suðurstofni makríls gegn mótmælum Norðmanna og Færeyinga.

Williams segir að samkvæmt mati Alþjóðahafrannsóknaráðsins sé makrílstofninn í góðu ástandi og með hliðsjón af því að stofninn hafi verið að stækka alveg frá árinu 2002 telji strandríkin [ESB, Færeyjar og Noregur] óhætt að auka kvótana núna.

Alþjóðahafrannsóknaráðið lagði til að heildarafli makríls á árinu 2009 yrði á bilinu 443-578 þús. tonn en strandríkin áðurnefndu hafa hins vegar ákveðið að heimila veiðar á 642 þús. tonnum, - og hafna því að Ísland eigi þar nokkurn rétt.

Ákvörðun Norðmanna um einhliða makrílkvóta sér til handa og reyndar Færeyinga líka hefur sætt harðri gagnrýni af hálfu talsmanns samtaka framleiðenda uppsjávarfisks í Danmörku sem segist sjá lítinn mun á framferði Íslendinga annars vegar og Norðmanna og Færeyinga hins vegar. Hann heldur því fram að ESB sé eini aðilinn sem fari að settum reglum.

Þá hafa umhverfissamtökin World Wide Fund (WWF) sent Helgu Pedersen sjávarútvegsráðherra Noregs bréf þar sem þau mótmæla ákvörðuninni og segja hana veikja orðspor Norðmanna sem ábyrgrar fiskveiðiþjóðar.