laugardagur, 16. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fréttir af brottkasti á þorski í Noregi

8. febrúar 2010 kl. 15:00

Strandveiðimenn í Noregi kasta lélegum þorski í hafið frekar en að koma með hann í land segir sjómaður í viðtali við netmiðil norska útvarpsins.

Brottkastið er sagt eiga sér stað vegna þess að síld í maga þorsksins skerðir gæði hans og sjómenn fá þá aðeins hálfvirði fyrir þorskinn.

Á landstíminu er þorskurinn hafður óslægður í stórum körum án kælingar. Óvenjumikil síld hefur verið í maga hans í vetur og því ber meira á gæðarýrnuninni en áður.

Enginn veit hvað meint brottkast er mikið.

Útvarpið hefur eftir talsmanni sjávarútvegsins í Senja að fáir séu í áhöfn á smærri bátunum og þeir hafi í mörg horn að líta. Hann segir að það sé í sjálfu sér ekki nein afsökun en nauðsynlegt sé að fá betri reglur til að vinna eftir.

Talsmaður norska sjávarútvegsráðuneytisins kannast við að hafa heyrt orðróm um brottkastið en hann tekur fram að þeir viti ekki hvað þarna fer fram því engir eftirlitsmenn séu um borð.