sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Færeyski ráðherrann harmar að hafa ekki ákveðið stærri makrílkvóta

31. ágúst 2010 kl. 12:00

Færeyski sjávarútvegsráðherrann, Jacob Vestergaard, segir í grein sem hann ritar í færeysk blöð að honum þyki miður að hafa ekki getað aukið makrílkvóta Færeyinga upp í 150.000 tonn á þessu ári eins og hann hafi ráðgert ef ekki næðust samningar milli strandríkjanna um skiptingu heildarkvótans.

Fram kemur í máli ráðherrans að skiptar skoðanir og harðar deilur hafi verið í Færeyjum um það hvort færeysk stjórnvöld ættu að setja sér einhliða makrílkvóta. Pólitískan stuðning hefði skort til þess að ákveða 150.000 tonna kvóta og því hefði niðurstaðan orðið sú að gefa út 85.000 tonna kvóta. Kvótinn sem Færeyingum hafði áður verið skammtaður var hins vegar 30.000 tonn.

Frá þessu er skýrt í norska sjávarútvegsblaðinu Fiskeribladet/Fiskaren. Þar er haft eftir Audun Maråk forsvarsmanni Samtaka norskra útgerðarmanna að þetta nýjasta útspil færeyska ráðherrans ýti enn frekar undir skoðanir þeirra útgerðarmanna í Noregi og Evrópusambandinu sem vilji svara Færeyingum og Íslendingum í sömu mynt og veiða eins mikið og þeir geti.