laugardagur, 31. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frjálsar ýsuveiðar við Svalbarða verði stöðvaðar

18. febrúar 2011 kl. 12:26

Ýsa

Norskir útgerðarmenn mótmæla stjórnlausum ýsuveiðum útlendra skipa á Svalbarðasvæðinu.

Samtök norskra útgerðarmanna (Fiskebåtredernes Forbund) krefjast þess af norskum stjórnvöldum að þau stöðvi strax það sem þau kalla stjórnlausar ýsuveiðar erlendra skipa á Svalbarðasvæðinu. Ýsuveiðar, gagnstætt veiðum úr öðrum mikilvægum fiskistofnum, virðast ekki lúta neinni stjórn.

Samtökin benda á í bréfi til norska sjávarútvegsráðuneytisins að þar sem ýsustofninn sé mjög stór um þessar mundir sé hægt að stunda hreinar ýsuveiðar á Svalbarðasvæðinu.

Samtökin segjast hafa staðið í þeirri trú hingað til að auk norskra og rússneskra skipa hafi einungis erlend skip með aflaheimildir í Barentshafi leyfi til að veiða ýsu þar. Við nánari athugun hafi hins vegar komið í ljós að stjórnunarreglur fyrir ýsu virðist vanta. Þær tegundir sem reglurnar gildi um séu þorskur, grálúða, loðna og norsk votgotssíld (sem Íslendingar kalla norsk-íslenska).