föstudagur, 7. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frostfiskur hættir starfsemi í Þorlákshöfn - um 50 störf í uppnámi

15. nóvember 2017 kl. 21:46

Þorlákshafnarbúar slegnir yfir fréttum af lokun fyrirtækisins.

Frostfiskur hyggst flytja starfsemi sína frá Þorlákshöfn til Hafnarfjarðar. Fyrir vikið eru um fimmtíu störf í uppnámi en fyrirtækið er stærsti atvinnuveitandinn á staðnum.

Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.

Þar kom fram að fyrirtækið hefur verið rekið í 19 ár í Þorlákshöfn – lokað verður fljótlega á nýju ári og öllu starfsfólki fyrirtækisins hefur verið tilkynnt sú ákvörðun.

Ástæður þess að forsvarsmenn fyrirtækisins taka þessa ákvörðun komu fram í frétt Stöðvar 2 í kvöld; að lækka kostnað, minnka flutningskostnað og komast í nýtt hús með nútímatækjum. Í Hafnarfirði er stefnt að því að 40 manns starfi hjá Frostfiski og er þess vænst að hluti þess hóps flytji með fyrirtækinu til nýrrar starfsstöðvar.

Gunnsteinn R. Ómarsson, bæjarstjóri Sveitarfélagsins Ölfuss, sagði í viðtali við Stöð 2 að samfélagið í Þorlákshöfn sé slegið yfir fréttunum.

 

Hús Frostfisks á fjórum hæðum er nú til sölu og öll tæki og búnaður tekin út úr því samhliða flutningunum til Hafnarfjarðar, kom einnig fram í fréttinni.