miðvikudagur, 23. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frumvarp um strandveiðar

4. september 2020 kl. 10:39

Tvær þingkonur stjórnarandstöðunnar hafa lagt fram frumvarp til laga sem myndi heimila ráðherra að ráðstafa aflta til strandveiða í september.

Þær Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Albertína Friðbjörg Elíasdóttir hafa á þingi lagt fram frumvarp sem myndi heimila ráðherra að ráðstafa aflamagni í óslægðum botnfiski „til veiða með handfærum til 30. september 2020.“

Í greinargerð segir að heimild til strandveiða í september væri nauðsynleg „mótvægisaðgerð við efnahagslegum áföllum sem dunið hafa yfir landið í kjölfar kórónaveirufaraldurs.“

Landssamband smábátaeigenda (LS) hafði áður farið þess á leit við Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að hann beiti sér fyrir lagabreytingu sem myndi opna fyrir strandveiðar í september.

Strandveiðitímabilið átti að standa út ágústmánuð en þær voru stöðvaðar þegar þriðjungur veiðidaga mánaðarins voru eftir vegna þess að veiðiheimildirnar voru uppurnar.

Í bréfi LS til ráðherra segir: „Samtöl við strandveiðisjómenn undanfarna daga gefa til kynna að þriðjungur þeirra muni ekki hefja aftur strandveiðar á þessu ári verði það leyft.  Útfrá þeirri vitneskju kæmi framlenging sér afar vel fyrir 350 útgerðaraðila, sem flestir eru nú án atvinnu.“