fimmtudagur, 24. september 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fryst grásleppa gæti skapað 300 milljónir í aflaverðmæti á ári

28. maí 2009 kl. 15:29

Grásleppan í land er heiti á verkefni sem hlaut nýlega 4 milljóna króna styrk frá AVS-sjóðnum. Nú hillir undir að hægt verði að skapa hundruð milljóna króna verðmæti úr grásleppunni, áður ónýttu hráefni, að því er fram kemur í Fiskifréttum sem fylgja Viðskiptablaðinu í dag

Grásleppuhrogn eru verðmæt og skila nokkrum milljörðum króna í þjóðarbúið árlega en hingað til hefur grásleppan ekki verið nýtt þar sem ekki hefur tekist að selja fiskinn sjálfan. Á þessu er að verða breyting. Markaður er fundinn í Kína fyrir frysta grásleppu og tilraunaframleiðsla hefur farið fram í vetur. Grásleppukarlar á Vopnafirði, Bakkafirði og Raufarhöfn hafa hirt grásleppuna og unnið hefur verið úr henni hjá HB Granda á Vopnafirði og GPG á Raufarhöfn.

Aðstandendur að þessu verkefni, Grásleppan í land, eru Landssamband smábátaeigenda, Triton ehf., Reykofninn Grundarfirði ehf. og BioPol ehf. á Skagaströnd. Verkefnisstjóri er Örn Pálsson, framkvæmdastjóri LS.

Örn sagði í samtali við Fiskifréttir að LS hefði reynt í vel á annan áratug að afla markaða fyrir grásleppuna, án árangurs en hann sagðist vongóður um að framtíðarmarkaður væri nú fundinn.

Meðaltalsveiði á grásleppuvertíðum síðastliðin ár hefur gefið af sér 9.600 tunnur af söltuðum hrognum. Til að framleiða það magn þarf að veiða um 6.000 tonn af grásleppu. Um 4.500 tonn eru eftir þegar búið er að hirða hrognin. ,,Við höfum áætlað að aflaverðmæti gæti verið 300 milljónir króna á ári að lágmarki miðað við að þessi 4.500 tonn verði nýtt. Auk þess skapast vinna í landi við framleiðslu og markaðsstarf. Útflutningsverðmætið er því hærri tala. Þá er ekki síður ánægjulegt að nú verður hægt að uppfylla lagaskyldu um að koma með allt sjávarfang að landi sem markaður er fyrir,“ sagði Örn.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.