mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Frystitogurum fækkar

2. janúar 2014 kl. 14:03

Frystitogarinn Venus var seldur á nýliðnu ári. (Mynd af vef HB Granda).

Lækkun verðs á sjófrystum afurðum helsta ástæðan, segir hagfræðingur LÍÚ.

Miklar breytingar standa nú yfir í rekstri íslenskra útgerðarfyrirtækja. Sveinn Hjörtur Hjartarson, hagfræðingur Landssambands íslenskra útvegsmanna, segir á vefsíðu samtakanna að þær breytingar sem kynntar hafa verið undanfarnar vikur og mánuði hjá útgerðum frystiskipa stafi af ýmsum ástæðum.

Þær helstu eru að afurðaverð hefur farið lækkandi. Þannig lækkaði afurðaverð sjófrystra afurða um 14 prósent samkvæmt gögnum Hagstofunnar milli 2012 og 2013. Þá sé launahlutfall á frystiskipum sem hlutfall af tekjum hátt en sem dæmi um það má nefna að fyrirtækið Stálskip, sem hefur gert út einn frystitogara, hefur á undanförnum árum greitt hæstu meðallaun landsins. 

Veiðigjaldið vegur þungt 

Sveinn Hjörtur nefnir einnig að rekstur frystitogara sé meiri en annarra togara vegna tækjabúnaðar um borð. Þá hafi verið þrengt að öllum útgerðum undanfarin ár og ýmsar álögur á útgerðina hafa aukist gríðarlega á undanförnum árum auk þess sem olíuverð sé hátt. „Þar vegur veiðigjaldið að sjálfsögðu þyngst en það leggist nú af fullum þunga á útgerðina, auk annarra álaga eins og til dæmis kolefnisgjalds. Útgerðarfélögin hafa margsinnis bent á að við þessari þróun verði að bregðast, svo komast megi hjá hallarekstri. Fyrirtækin eiga ekki annan kost en að bregðst við þessari stöðu með hagræðingu," segir Sveinn Hjörtur. 

Frystiskip úr landi 

Meðal breytinga má nefna að útgerðarfyrirtækið Ögurvík setti skipið Frera á sölu síðasta sumar, Þorbjörn hf. í Grindavík vinnur að endurskipulagningu og hyggst selja fyrstitogarann Hrafn, á Sauðárkróki hefur fyrirtækið FISK Seafood ehf. tilkynnt að frystitogarinn Örvar verði seldur úr landi, Brim hf. sá ekki rekstraforsendur til að gera út Skálaberg og verður skipið gert út frá Grænlandi, áhöfninni á frystiskipinu Þór sem Stálskip í Hafnarfirði gerir út hefur verið sagt upp og HB Grandi seldi í desember togarann Venus.