laugardagur, 24. október 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Full ástæða til að gera þriðju mælinguna

Guðsteinn Bjarnason
13. febrúar 2020 kl. 09:30

Loðnudreifingin í fyrstu og annarri yfirferð ársins.

Bráðabirgðamat Hafró er að hrygningstofninn sé 250 þúsund tonn, og vantar þá að minnsta kosti 150 þúsund tonn svo mæla megi með veiðum

„Bráðabirgðaniðurstaða loðnumælinga dagana 1.-9. febrúar liggur nú fyrir,“ segir í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun. „Heildarmagn hrygningarloðnu samkvæmt henni er 250 þúsund tonn og hefur þá ekki verið tekið tillit til áætlaðra affalla úr stofninum vegna afráns fram að hrygningu. Þessi mæling byggir á yfirferð sem í þátt tóku RS Árni Friðriksson og uppsjávarveiðiskipin; Aðalsteinn Jónsson SU, Börkur NK, Margrét EA og Polar Amaroq. Mest reyndist vera af loðnu við Kolbeinseyjarhrygginn en einnig fannst loðna við landgrunnskantinn norðaustur og norðvestur af landinu (mynd).

Niðurstaða þessarar mælingu er töluvert undir því marki sem gefur Hafrannsóknastofnun tilefni, samkvæmt aflareglu, til að mæla með veiðikvóta. Svo það gerist má gróflega áætla að það þurfi að minnsta kosti 150 þúsund tonn til viðbótar að mælast.

Þessi mæling á hrygningarstofni loðnu í febrúar er mun hærri en fyrri mælingin í janúar upp á 64 þúsund tonn og því þykir full ástæða til að gera þriðju mælinguna. Árni Friðriksson byrjaði þá mæliyfirferð 11. febrúar og munu veiðskip bætast við í mælinguna um og eftir helgi þegar óveður helgarinnar gengur niður.“

Annarri umferð loðnuleitar Hafrannsóknastofnunar lauk um helgina og fannst þá töluvert meiri loðna en í fyrstu umferðinni, en þó engan veginn nóg til þess að gefa megi út ráðgjöf um loðnuveiðar. Fiskifréttir ræddu í gærmorgun við Birki Bárðarson fiskifræðing á Hafrannsóknastofnun, en hann er leiðangursstjóri.

„Það er alveg ljóst að þetta er ekki nóg til að við gefum ráðgjöf um veiðar. Það vantar talsvert upp á það,“ sagði hann.

„Við kláruðum fyrir norðan á sunnudag og við fundum þar talsvert meira heldur en við höfðum áður séð, rétt vestur af Kolbeinseyjarhrygg. Hún virtist ganga upp á grunninn þar,“ sagði hann.

Hann segir að vestantil á rannsóknarsvæðinu, út af Vestfjörðum, hafi ungloðna verið í meirihluta, „en eftir því sem austar dró var þetta í auknum mæli kynþroska loðna. Það sem var að ganga við Kolbeinseyjarhrygginn var allt kynþroska loðna og líka það sem var að ganga austur fyrir.“

Auk Árna Friðrikssonar fjögur fiskiskip þátt í leitinni. Þetta eru íslensku skipin Aðalsteinn Jónsson SU, Börkur NK og Margrét EA ásamt grænlenska skipinu Polar Amaroq. Skipin sigldu öll til hafnar nema Árni Friðriksson sem fór austur fyrir land til að hefja strax næstu yfirferð.

„Við byrjuðum á því að skoða okkur um þarna suðurfrá og kíktum í fréttir sem við höfðum haft úr Litladjúpi, kíktum í Lónsvík og fleiri staði. Svo erum við núna að vinna okkur norður með kantinum fyrir austan land, meðfram landgrunnsbrúninni,“ segir Birkir.

„Við erum rétt að byrja að sjá loðnu út af Glettinganesgrunni, sem passar við það sem við vorum áður búnir að sjá.“

Viðræður stóðu yfir í gær hvort útgerðin muni aftur leggja til skip í þriðju yfirferð loðnuleitar, en útgerðarfyrirtæki hafa lagt mikla áherslu á að leit verði haldið áfram jafnvel fram í mars.

Í fyrstu yfirferð ársins mældist stærð hrygningarstofnsins um 64 þúsund tonn. Þótt allt að 250 þúsund tonn mælist nú dugar það engan veginn til þess að ráðleggja loðnuveiði. Ráðgjöf er miðuð við að hrygningarstofninn í mars verði yfir ekki minni en 150 þúsund tonn.