þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fullfermi af rækju úr Smugunni

Guðjón Guðmundsson
20. apríl 2020 kl. 07:00

Landað á Akureyri á dögunum. Polonus hét áður Baldvin Þorsteinsson EA. Mynd/Þorgeir Baldursson

Polonus Gdy landaði á Akureyri.

Frystitogarinn Polonus Gdy, sem er í eigu Deutsche Fiscfang Union (DFFU) í Cuxhaven, dótturfélags Samherja, landaði í síðustu viku fullfermi af rækju og blönduðum afla á Akureyri sem fengist hafði norðarlega í Smugunni. Þá var eitt ár síðan skipið landaði á Íslandi síðast. Skipstjóri á Polonus Gdy er Teitur Björgvinsson.

Polonus hét áður Baldvin Þorsteinsson EA og var fyrsta nýsmíði Samherja þegar hann kom til landsins í nóvember 1992.  Skipið var selt til DFFU árið 2001 og hefur Teitur verið í áhöfn þess frá árinu 2008, þar af sem skipstjóri frá árinu 2012. Skipið er nú gert út af Arctic Navigations í Póllandi, sem er dótturfélag DFFU.

„Rækjuveiðarnar eru svo til ný tilkomnar. Við fórum tvo túra í fyrra á rækju og byrjuðum svo núna líka á rækju. Að mestu höfum við áður verið í flakafrystingu,“ segir Teitur.

Teitur er Hríseyingur og var lengi vel með Haförninn EA og var á hinum og þessum skipum eftir að Haförninn var seldur 1999. Þrátt fyrir að vera skráður í Póllandi er Polonus gerður út frá Cuxhaven þar sem DFFU er með starfsstöð.

Fleiri skip hafa verið í Smugunni á rækjuveiðum, m.a. Logis, Taurus, Merike, Steffano og Reval Viking sem gerð eru út af eistneska útgerðarfélaginu Reyktal AS.  Skipstjóri á síðastnefnda skipinu er Eiríkur Sigurðsson.

50-60 daga túrar

„Ég er búsettur í Hrísey og þetta eru langir túrar, að jafnaði 50-60 dagar. Það hefur verið reglan í gegnum tíðina að fylla skipið. Siglingin norður eftir frá Cuxhaven í Barentshafið tekur alveg sex sólarhringa og ef við förum aftur til Cuxhaven að landa þá fer bara hálfur mánuður í siglingu. Við höfum líka landað í Noregi og þá er það ekki nema einn og hálfur sólarhringur sem siglingin tekur.“

Að þessu sinni var landað á Íslandi þar sem Teitur var að fara í frí og rækjuvinnslan Dögun á Sauðárkróki keypti rækjuna. Við skipinu tók Vilhelm Þór Harðarson og var stefnan tekin á Smuguna á ný. Rækjan er heilfryst um borð. Alls voru þetta um 500 tonn upp úr sjó, þar af um 390 tonn af rækju og talsvert af grálúðu og skrápflúru.

„Skrápurinn er nú orðinn afurð hausskorinn og sporðskorinn. Þetta er orðinn matur og er reyndar bara fínasti matur en menn hafa lítið viljað borga fyrir þetta fram að þessu.“

Mesti ís síðan 1988

Í síðasta túr voru 22 í áhöfn Polonus, menn af mörgum þjóðernum. Teitur sagði einungis lítið svæði væri opið fyrir þessum veiðum í Smugunni því ís er mjög útbreiddur.

„Það er feykilega mikill ís á norðurslóðum og óvenjumikill ís í Smugunni og á Svalbarðasvæðinu. Ég hef verið þarna frá árinu 2008 og ég man ekki eftir jafnmiklum ís. Þetta er bara íshella sem gefur sig auðvitað með vorinu. Það er kalt þegar blæs af ísnum og yfirleitt um fimmtán gráðu frost eða meira.“

Norska hafrannsóknastofnunin hefur reyndar gefið það út að ekki hafi verið meiri ís við Svalbarða síðan 1988. Ísinn þar sé núna um 20 prósent meiri en meðaltal áranna 1981 til 2010.