föstudagur, 14. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fullfermi á tveimur sólarhringum

14. júlí 2020 kl. 13:34

Landað úr Vestmannaey. Mynd/Guðmundur Alfreðsson

Bergey og Vestmannaey, ný skip Bergs-Hugins, hafa rótfiskað allt frá komu sinni til landsins.

Ísfisktogararnir Vestmannaey VE og Bergey VE lönduðu fullfermi í Vestmannaeyjum í gær. Heimasíða Síldarvinnslunnar ræddi við skipstjórana í morgun en þá voru bæði skipin að veiðum á Mýragrunni.

Birgir Þór Sverrisson, skipstjóri á Vestmannaey, sagði að síðasti túr hefði gengið mjög vel.

„Við fylltum skipið á tveimur sólarhringum en aflinn var aðallega ýsa og ufsi. Þetta var stór og fallegur fiskur. Við byrjuðum að veiða á Mýragrunni, færðum okkur um tíma austur á Stokksnesgrunn og síðan aftur á Mýragrunn þar sem var hörkuveiði. Haldið var til veiða á ný strax að löndun lokinni,“ segir Birgir.

Ragnar Waage Pálmason, skipstjóri á Bergey, sagði einnig að tvo sólarhringa hefði tekið að fylla skipið í síðustu veiðiferð.

„Við byrjuðum á Stokksnesgrunni í ýsu og ufsa og þar var fínasta veiði. Við veiddum einnig um tíma á Reynisdýpinu en þar fékkst karfi og ufsi. Þar vorum við í skrapveiði. Nú erum við á Mýragrunninu og erum að fá ýsu, en hún heldur sig helst þar sem síldin hrygnir. Ýsan sækir mjög í síldarhrognin. Stundum höfum við verið að fá ýsu á Péturseynni í júní og júlí en nú heldur hún sig ekki þar,“ segir Ragnar.