fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fundað um síld og kolmunna í London

10. desember 2013 kl. 08:01

London

Reynt verður að ná samkomulagi við Færeyinga um síldina.

Samningaviðræður um síldar- og kolmunnakvóta næsta árs verða í Lundúnum næstu daga, þar sem fulltrúar Íslands og annarra strandríkja við Norður-Atlantshaf eiga fulltrúa. Sæmilegur friður ríkir um kolmunnann, en óvíst er hins vegar hvort Færeyingar samþykki þá skiptingu á síldarkvóta sem nú er í gildi, segir Kristján Freyr Helgason sem fer fyrir íslensku samninganefndinni.

„Færeyingar eru ósáttir við sinn hlut fyrir árið 2013 og þá settu þeir sér einhliða kvóta upp á 17 prósent,“ segir Kristján í viðtali við fréttastofu RÚV.. Þeir fá hins vegar aðeins rúmlega fimm prósent samkvæmt samningi sem gerður var árið 2007.

Kristján segir að lagt verði að Færeyingum að samþykkja síldarkvóta næsta árs. Hópur vísindamanna er nú að störfum við að meta ástand og stærð síldarstofnsins; á grundvelli þeirra niðurstaðna eigi síðan að semja upp á nýtt um skiptingu kvótans.