þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fundu hvalafælur sem virka

Guðjón Guðmundsson
31. október 2020 kl. 09:00

Svarta stykkið undir gellunni eru umræddar fælur. Eina fælu þarf á hverja 200-250 metra af netum. Myndir/Tryggvi Sveinsson

Velheppnaðar prófanir Hafrannsóknastofnunar.

Hafrannsóknastofnun gerði prófanir á nýrri gerð af hvalafælum í apríl síðastliðnum og niðurstöðurnar lofa afar góðu. Þetta gætu sannarlega reynst góðar fréttir því eins og skýrt var frá í Fiskifréttum í síðustu viku gæti Ísland, eins og aðrar þjóðir, misst leyfi til að flytja út sjávarafurðir til Bandaríkjanna veiðist sjávarspendýr sem meðafli í veiðarfæri í nokkru magni.

Fréttirnar eru uppörvandi ekki síst í ljósi fyrri tilrauna sem gerðar hafa verið með spendýrafælur. Þannig var vorið 2018 sagt frá prófunum á hvalafælum í Fiskifréttum sem gáfu frá sér hátíðnihljóð. Prófanirnar þá sýndu fram á algert gagnsleysi búnaðarins. Í Húnaflóa komu 12 hnísur í net með hvalafælum og 11 í net án hvalafæla.

„Hljóðmerkið virkaði ekki sem skyldi og við létum framleiðandann vita. Hann brást við og uppfærði hljóðmerkið. Við prófuðum uppfærða útgáfu í apríl síðastliðnum um borð í Geir ÞH. Búnaðurinn virkaði mjög vel. Enginn meðafli var í fælunetunum en slatti í þeim fælulausu yfir 14 daga tímabil,“ segir Guðjón Már Sigurðsson fiskifræðingur hjá Hafrannsóknastofnun.

Engin smáhveli í net með fælum

„Við fengum engin smáhveli í net með fælunum en 10 dýr í fælulausu netin. Við vorum í Húnaflóanum við prófanir á þessari uppfærðu gerð. Búnaðurinn byggir nú á aðvörunarhljóðum sem hnísur gefa frá sér með einhverjum viðbótum sem er viðskiptaleyndarmál framleiðandans,“ segir Guðjón Már.

Framleiðandi fælanna er fyrirtækið Maritime Technology í Þýskalandi og kallast fælurnar Porpoise-PAL. Framleiðandinn tók upp aðvörunarhljóð frá hnísum í sædýrasöfnum. Hljóðin eru einangruð og mögnuð upp í fælunum. Þær hafa verið prófaðar hérlendis, í Eystrasalti og einnig í Svartahafi. Fælurnar hafa gefið góða raun í flestum prófunum.

Frekari prófanir framundan

Fælurnar eru ennþá á tilraunastigi og innflutningur því ekki hafinn. Hafrannsóknastofnun á um 30 stykki og áformað er hjá stofnuninni að fá liðsinni eins til tveggja netabáta til þess að prófa fælurnar enn frekar við raunverulegar aðstæður. Tilgangurinn væri þá einnig að athuga hvort hætta sé á því að fælurnar skemmist við veiðar. Miðað við 50-60 metra net þarf eina fælu á fjögurra til fimm neta millibili, eða eina fælu á hverja 200-250 metra af netum. Hver fæla kostar undir 30 þúsund krónum þannig að búnaðurinn ætti ekki að vera óyfirstíganlegur kostnaður fyrir útgerðina miðað við hagsmunina sem eru í húfi.

„Þetta var ein af mörgum leiðum sem við fórum að kanna þegar þessar nýju reglur í Bandaríkjunum voru kynntar. Bandaríkjamenn mæla sjálfir með því að fælur af þessu tagi séu prófaðar. Fyrst prófuðum við fælur sem þeir sjálfir nota sem gefa aðallega frá sér óhljóð/hátíðnihljóð en ekki raunveruleg aðvörunarhljóð. Þær virkuðu alls ekki og við fengum jafnmikið eða meira af smáhvelum í net með fælum en í fælulausu netin.“

Selurinn óleyst vandamál

Porpoise-PAL fælurnar virka á smáhveli; hnísur og höfrunga en síður á seli. Annað vandamál í meðafla í netaveiðum er selur sem sækir ekki síst í grásleppunetin. Selurinn er þeim gáfum gæddur að hann áttar sig á því með tíð og tíma að fælurnar eru hættulausar. Á endanum er hugsanlegt að fælurnar dragi til sín sel frekar en að þær hrekji hann á brott. Enn hefur því ekki fundist lausn varðandi sel í meðafla sem getur þá sett strik í útflutning á sjávarafurðum til Bandaríkjanna.