miðvikudagur, 12. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Furðudýr og fjölbreytileiki

Guðsteinn Bjarnason
11. ágúst 2019 kl. 07:00

Furðudýr með ferkantaðan fót. Dýrið er um 10 sentimetrar í þvermál. MYND/Hafrannsóknastofnun

Fjölbreytt dýralíf er á hafsbotninum við Ísland. Starfsfólk Hafrannsóknastofnunar hélt í leiðangur í sumar á Bjarna Sæmundssyni til að kanna dýrðina og taka myndir.

Kortlagning búsvæða á hafsbotninum er langtímaverkefni á vegum Hafrannsóknastofnunar. Árlega er haldið í gagnasöfnunarleiðangur, neðansjávarmyndir teknar, búsvæðin skilgreind og fjölbreytileiki þeirra skoðaður.

Í lok júní og byrjun júlí var haldið í slíkan leiðangur á Bjarna Sæmundssyni, öðru af tveimur rannsóknarskipum stofnunarinnar. Leiðangursstjóri var Steinunn Hilma Ólafsdóttir og skipstjóri var Ásmundur Sveinsson.

„Með því að skoða á skipulagðan hátt lífríkið á botninum komumst við nær því að þekkja náttúrulegan fjölbreytileika á sjávarbotninum við landið, en einnig sjáum við líka áhrif mannsins á lífríkið og umhverfið,“ segir í frásögn Hafrannsóknastofnunar af ferðinni.

Myndir voru teknar bæði á ósnortin svæðum og innan við veiðislóðir, bæði ljósmyndir og myndbönd. Valin eru svæði með ólíka botngerð og á mismundandi dýpi, en sérstök áhersla er á að leita uppi viðkvæm og fágæt búsvæði eins og kóralrif, kóralgarða og svampabreiður.

Úrvinnsla á myndefninu hefst í haust. Þá verða öll dýr greind og talin, botngerð skráð og allt rusl og slitin veiðarfæri sömuleiðis.

Mikilvægar í lífkeðjunni
„Flestar tegundir fiska í hafinu umhverfis landið eru vel þekktar og hafa fiskistofnar hér við land verið vaktaðir árum saman til að meta stofnstærð og veita ráðgjöf um veiðar,“ segir ennfremur. „Það vistkerfi sjávar sem hins vegar hefur ekki verið fylgst með er lífríkið á botninum.“

Bent er á að sjávarbotninn er fullur af lífi og þær lífverur sem þar er að finna eru stór og mikilvægur hluti af lífkeðju hafsins, þar á meðal afkomu margra fiska.

Ekki er vitað hvernig þessar lífverur hafa brugðist við breytingum í gegnum tíðina og vakna þar margar spurningar:

„Hvaða áhrif hafa aukinn hiti eða súrnun sjávar? Eru nýjar tegundir að bætast við eða hefur fjölbreytileiki minnkað?“

Ennfremur er spurt hvernig veiðar hafa breytt þessu vistkerfi, hvort einhver búsvæði hafi horfið og hvaða lífverur hafi skapað sér tækifæri við þessar aðstæður.

„Mesta álag sem lífríki botnsins stendur þó fyrir hér við land og víðar eru veiðar.“

Að þessu sinni sást ekki mikið af rusli, en eins og áður var mest af ruslinu slitin veiðarfæri.

Sjötíu snið mynduð
Alls voru mynduð 70 snið eftir botninum og var hvert snið um 600 m að langt. Myndað var á 100-700 m dýpi. Staðsetning sniðanna var valin út frá umhverfisþáttum eins og botnlagi og botnhörku. Einungis er myndað á svæðum þar sem hafsbotninn hefur verið kortlagður með fjölgeislamælingum.

Að þessu sinni var kíkt á botninn yst í Jökuldjúpi um 50-80 sjómílur vestsuðvestur af Garðsskaga, litið var á uppstreymissvæði austur af Eldey, á grjóthóla við Kötlugrunn og á landgrunnsbrúnina og kantinn allt frá Háfadjúpi að Hornafjarðardjúpi.

Margt áhugavert kom í ljós, eins og búast mátti við. Þar á meðal sáust á grjóthólum við Kötlugrunn svampar og kóralgarður með tegundinni “Swiftia”, sem er ein af mörgum kóraltrjátegundum við Ísland.

„Þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum þessa kóraltegund í miklu magni.“

Þá segja leiðangursmenn ánægjulegt að hafa rekist á lifandi kóralrif á nokkrum stöðum í bröttum landgrunnskantinum við suðurströndina. Einnig var ánægjulegt að sjá þar á öðrum stöðum akra af sæfjöðrum.

„Þessi svæði eru utan við veiðislóð enda í bröttum kantinum. Ofan á kantinum voru hins vegar dauð kóralrif enda er veiðiálag þar mikið og kóralrifin sem einu sinni voru þar hafa horfið.“

Óþekkt furðudýr
„Á Kötlugrunni sáum við dýr sem við höfum ekki séð áður og höfum enn ekki fundið út hvað í raun er. Liturinn er ljósfjólublár og dýrið er með tvær raðir af öngum og ferkantaðan fót,“ segir skrásetjari.

Tekið er fram að á hafsbotninum í kringum Ísland séu þekktar yfir 3000 tegundir af botndýrum en aðeins hluti þeirra hafi verið myndaður hingað til.

„Hvort þetta dýr tilheyri einhverri af þessum þekktu tegundum eða hvort um nýja tegund sé að ræða við Ísland vitum við ekki nú.“