miðvikudagur, 20. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrsta útskrift í netagerð og 35 útskrifaðir á árinu

20. desember 2019 kl. 15:00

Skólinn tók formlega við námi í netagerð á árinu. Mynd/Fisktækniskólinn

Fisktækniskóli Íslands í Grindavík - 60 nemendur við nám á haustönn.

Fisktækniskóli Íslands í Grindavík útskrifaði 17 nemendur í byrjun desember. Útskrifaðir voru fjórir fisktæknar, ellefu gæðastjórar og tveir netagerðamenn. Fisktækniskóli Íslands er eini skólinn á landinu sem býður upp á nám í veiðarfæratækni og það er í fyrsta skipti í ár, sem skólinn útskrifar nemendur á því sviði, eftir að hann tók formlega yfir náminu á síðasta ári.

Nám í gæðastjórnun er kennd í samstarfi við Sýni ehf, en umsjón með brautinni hefur Klemenz Sæmundsson. Átján nemendur luku námi á vorönn og hafa því alls 35 nemendur útskrifast á árinu af alls fimm brautum sérnáms á sviði veiða, vinnslu og fiskeldi.

Þetta kemur fram í frétt skólans.

60 við nám á haustönn

Þar segir að um 60 nemendur stunduðu nám í skólanum á haustönn og þar af rúmlega helmingur í grunnámi í Fisktækni. Yfir tuttugu nemendur stunda nú nám í netagerð. Þá er framundan mikill vöxtur innan fiskeldis, en skólinn gerði í sumar samning við Arnarlax, Arctic Fish og Ice Fish um menntun starfsfólks í sjókvíum fyrirtækisins, eins og Fiskifréttir sögðu frá á sínum tíma.

Um 30 nemendur hófu nám í fisktækni með áherslu á fiskeldi á Bíldudal í nóvember síðastliðnum og fleiri starfsmenn fyrirtækjanna bætast síðan við á næsta ári. Haldin voru fjölmörg námskeið fyrir starfsfólk í veiðum og vinnslu og sá skólinn m.a., um námskeið um Baader-vélar fyrir áhafnir á skipum Brims. Framhald verður á þessari starfsemi á næsta ári.

Skólinn fer víða

Mikil aukning er í umsóknum í nám við skólann og nú þegar svo til fullskipað í nám í Marel-vinnslutækni og gæðastjórnun, sem hefst nú í janúar 2020. Þá er stefnt á nám í fisktækni bæði á Ísafirði og Akureyri á næsta ári í samstarfi við heimamenn á hvorum stað.

„Framundan er fjöldi verkefna fyrir fyrirtæki í sjávarútvegi auk verkefna á sviði þróunarsamvinnu (m.a. í Víetnam í samstarfi við Marel) og útlit fyrir mikinn vöxt í námskeiðahaldi á sviði veiða, vinnslu og fiskeldis víða um land,“ segir í fréttinni.