miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrsti hnúðlax sumarsins veiddur

Gudjon Gudmundsson
4. júlí 2019 kl. 16:07

70 veiddust í ám víða um landið 2017

Fyrsti hnúðlax sumarsins veiddist  í Ölfusá fyrir landi Hrauns í Ölfusi 2. júlí sl. Um var að ræða 2,4 kg hrygnu sem var vel haldin eftir dvöl sína í sjó. Í kjölfar vaxandi gengdar hnúðlaxa í íslenskar ár 2017, þegar um 70 hnúðlaxar veiddust í ám víðsvegar um landið, má búast við að talsvert margir hnúðlaxar komi til með að veiðast í sumar. Sagt er frá þessu á heimasíðu Hafrannsóknastofnunar. 

Lífsferill hnúðlaxa er stuttur. Þeir hrygna seinni hluta sumars og snemma hausts, jafnan fyrr en okkar laxfiskar. Hrognin klekjast út að vori og ganga til sjávar aðeins nokkurra vikna gömul. Þannig eru í raun aðskildir stofnar í árum með jafna tölu í ártali og oddatölu svo ekki verður blöndun á milli þeirra. Árgangurinn á oddatölu ári er jafnan stærri. Hnúðlaxar drepast allir að lokinni hrygningu og því verður stundum vart við úthrygnda fiska síðsumars.

Hafa dreift sér

Hnúðlax er af ætt Kyrrahafslaxa en þeir voru fluttir yfir í Atlantshaf.  Fyrst á árunum fyrir 1960 frá Kamchatka til Kolaskaga í Rússlandi.Fyrsti hnúðlaxinn veiddist hér á landi 1961 og hefur þeirra orðið vart í litlum mæli flest ár síðan sem villufisk úr sleppingum. Smám saman hefur hnúðlax náð að dreifa sér og hefur myndað stofna í ám í Rússlandi og norður hluta Noregs. Sumarið 2017 varð mjög mikil aukning í fjölda hnúðlaxa og varð þeirra vart í talsverðum mæli í ám í Noregi, á Bretlandseyjum, Frakklandi og Spáni. Hvort hnúðlaxar nái að nema land í ám hér á landi er ekki enn vitað né hvort þeir kunni að hafa áhrif á stofna laxfiska hér á landi. Hnúðlaxahængar hafa áberandi hnúð á baki og oft með rauðan lit á kvið. Hrygnum er oft ruglað saman við bleikju en hnúðlaxahrygnur hafa m.a. doppur á sporði og bakugga sem er ekki á bleikju.

Hafrannsóknastofnun safnar upplýsingum um veidda hnúðlaxa. Mikilvægt er að veiðimenn sem veiða hnúðlaxa skrái þá í veiðibækur og komi upplýsingum um þá til Hafrannsóknastofnunar.