sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Fyrsti prufutúrinn á nýrri Viðey RE

14. júní 2018 kl. 17:00

Viðey RE kemur úr prufutúrnum. MYND/Guðmundur St. Valdimarsson

Allt gekk snurðulaust fyrir sig

Við vorum bara rétt í þessu að koma inn úr þessum prufutúr og það á að fara að landa úr skipinu,“ sagði Jóhannes Ellert Eiríksson, skipstjóri á Viðey RE. Skipið fór í prufutúrinn á mánudag í síðustu viku og kom aftur að landi þremur dögum síðar með 80 tonn af fiski. Jóhannes segir að allt hafi gengið nánast snurðulaust fyrir sig.

gugu@fiskifrettir.is

Um borð voru tæknimenn frá Skaganum, 3X og Naust Marine til að taka út virkni búnaðarins en stóra málið er að framkvæma fínstillingar svo sjálfvirk lest skipsins virki sem skyldi.

Viðey hefur eftir komuna frá Tyrklandi í desember síðastliðinn verið á Akranesi þar sem starfsmenn Skagans 3X hafa unnið að uppsetningu nýs, sjálfvirks lestarkerfis, aðgerðaraðstöðu á millidekki og stillingum á ýmsum tölvubúnaði. Jóhannes Ellert kom sjálfur úr síðustu veiðiferð Ottós N. Þorlákssonar RE í lok maí en hann hefur verið skipstjóri þess mikla aflaskips í 24 ár.

Tvær kynslóðir

Jóhannes Ellert segir mikinn mun á nýrri Viðey og Ottó N. Þorlákssyni enda sé nýja skipið að minnsta kosti tveimur kynslóðum frá honum. Þótt mikið hafi verið gert fyrir Ottó N. Þorláksson sé mikill munur á öllum aðbúnaði um borð.

Það óhapp varð í prufutúrnum að einn úr áhöfninni klemmdist illa á hendi. Hlúð var að honum í sérútbúnum sjúkraklefa skipsins og bátur sigldi til móts við Viðey og flutti hann í land. Betur fór en á horfist en hann hlaut af skurð og brotinn fingur.

„Í skipinu er líka sérstakt öryggisrými þar sem allur björgunar- og slökkvibúnaður er geymdur úti á dekkinu þar sem aðgengi er mjög gott. Það mikið horft í hluti af þessu tagi í hönnun skipsins og mikið stökk fram á við hvað það varðar.“

Löndunartíminn styttist

Jóhannes Ellert sagði að það hefði verið blankalogn lengst af í prufutúrnum en gaf þó aðeins á á heimstíminu. Skipið var nánast galtómt og menn ætlu vart að trúa því hve vel veltitankurinn virkaði. Þessi nýju skip láti alveg ljómandi vel í sjó og fleiri hafi haft orð á því. Þetta sé líka hluti af betri aðbúnaði um borð. Hann segir að menn séu þeirrar skoðunar að nýja lagið á stefninu auki öryggið og býður auk þess upp á mun meira pláss í skipinu sem einkum nýtist fyrir geymslu á veiðarfærabúnaði. Auk þess segir Jóhannes Ellert hljóðvistina í nýja skipinu ekki sambærilega við eldri skip. Nú vakni menn ekki upp við skröltandi keðjur þótt verið sé að hífa.

„Menn voru ánægðir með túrinn og þetta gekk allt tiltölulega snurðulaust og eðlilega fyrir sig. Nú eru framundan minniháttar stillingar. Við prófuðum sjálfvirka lestarkerfið og vorum að samhæfa það veiðunum. Við fórum bara stystu leið suðvestur af landinu og tilgangurinn var eingöngu að ná í fisk til þess að prófa búnaðinn. Við vorum með 80 tonn af karfa og ufsa,“ segir Jóhannes Ellert.

Löndunin er því sem næst sjálfvirk og stýrist af nemum og skynjurum. Þegar búið verði að ná tökum á tækninni styttist ennfremur löndunartíminn.