mánudagur, 18. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gáfu eftir frelsið en fengu öryggi

Guðsteinn Bjarnason
12. janúar 2020 kl. 13:00

Frá málstofu um rafrænt eftirlit á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvember. Wes Eriksson annar frá vinstri. MYND/Sjávarútvegsráðstefnan

Smábátasjómenn í Kanada tóku eftirlitsmálin í eigin hendur

Smábátasjómenn við Kyrrahafsströnd Kanada, vestast í landinu í fylkinu Bresku Kólumbíu, hafa árum saman haldið úti öflugu eftirliti með myndavélum um borð í fiskiskipum.

Wes Erikson, smábátasjómaður í Kanada, fjallaði um þetta í erindi sínu á Sjávarútvegsráðstefnunni í nóvember og greindi frá tildrögum þessa fyrirkomulags.

„Ég er hér ekki til að gefa ráð,“ sagði hann. „Ég ætla bara að segja söguna.“

Hann ólst upp við fiskveiðar. Faðir hans, afi og langafi höfðu allir stundað sjóinn og sjálfur var hann kominn með eigin bát sextán ára gamall, árið 1987, og keypti sér veiðileyfi á lúðu og lax þegar hann var tvítugur.

„Hverjum sjómanni finnst hann vera einstakur. Við erum sjálfstæðir frelsisleitendur, öllum óháðir og reiðum okkur á innsæið og ímyndunaraflið.“

Þegar hann var að byrja veiddu menn eins og þeim sýndist.

„Við fórum stöðugt yfir leyfilegt hámark, gæðin voru léleg og verðið lágt. Við stunduðum brottkast og misstum veiðarfæri.“

Vertíðin 1987 varð erfið, veðurfar með versta móti, sumir misstu bátinn sinn og nokkrir létu lífið.

Sáu að eitthvað þurfti að gera

„Við áttuðum okkur á því að eitthvað þyrfti að gera og vorum loks orðnir tilbúnir til að gera breytingar.“

Niðurstaðan varð sú að taka upp kvótakerfi að íslenskri fyrirmynd og með eftirliti, en reglurnar mótuðust þó af aðstæðum í Kanada. Smám saman fundu þeir að þessu fyrirkomulagi fylgdi töluvert öryggi.

„Við vorum tilbúnir til að fórna ákveðnu frelsi fyrir þetta öryggi,“ sagði hann og tók fram að markaðurinn hafi jafnframt tekið við sér. Nú gátu menn farið að stýra eigin veiðum í ljósi þeirra verðmæta sem von var á: „Fiskurinn var orðinn verðmætur áður en hann var veiddur. Áður fyrr var hann verðlaus þangað til búið var að veiða hann.“

Árin liðu og lúðuveiðarnar gengu vel, en smám saman fóru sjómennirnir sjálfir að efast um réttmæti þess að kasta í sjóinn öllum meðafla.

„Sumir félagar mínir meðal sjómanna sögðu ekkert rangt við brottkastið.“ Það væri svo mikið af meðaflafiskinum hvort eð er.

Gagnkvæmt traust

Á endanum komu menn sér þó saman um að auka þyrfti eftirlit með brottkasti og meðafla. Myndavélaeftirlit yrði lykilþáttur í þessu eftirliti.

„Við tókum smám saman að átta okkur á því að fullt eftirlit með flotanum þýddi að spurningin um traust er ekki lengur með í myndinni. Þetta myndi gera greininni kleift að hefja samstarf við stjórnvöld og vísindamenn.“

Sett var upp áætlun um að koma upp myndavélum í hverjum einasta bát, samið við eftirlitsfyrirtæki um þróun á búnaði og þriggja ára aðlögundartími gefinn. Margir áttu þó erfitt með að sætta sig við þetta til að byrja með.

„Sjálfur gat ég engan veginn sætt mig við að geta ekki veitt upp í allan kvótann í öllum tegundum,“ sagði Wes. „Við vorum ekki vissir um hvort við gætum veitt með löglegum hætti og hvort eftirlitsmenn færu kannski að handtaka heiðarlega sjómenn sem gera heiðarleg mistök.“

Allir gáfu eftir

Brugðist var við með því að kalla alla að borðinu og semja um útfærsluna, rétt eins og áður þegar kvótakerfinu var komið á. Meðal annars var samið við stjórnvöld um að fyrstu árin yrði myndefnið ekki notað til að refsa neinum, jafnvel þótt brotlegir gerðust.

Verkefnið hófst árið 2006 og nú er svo komið að fullt eftirlit er með sjö veiðiflokkum, þar sem hugað er að samtals 70 tegundum. Hver einasti bátur ber fulla ábyrgð á eigin veiðum, en getur keypt eða selt kvóta eftir þörfum.

„Sjómenn í Bresku Kólumbíu eru nú í fararbroddi í verndarmálum,“ sagði Wes. „Þetta tók tíma og fól í sér að allir þurftu að gefa eftir. Það var samt ekkert auðvelt að komast þangað. Þetta tók sinn tíma. Sjómenn fórnuðu frelsi, tíma og peningum, vísindamenn aðlöguðu kvóta og hlutfallslegt veiðiálag, og stjórnvöld aðlöguðu reglurnar fram og til baka.“

Lúðuveiði við Kanada. MYND/Wes Erikson