þriðjudagur, 22. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gagnleg nýbreytni

21. nóvember 2012 kl. 13:21

Fiski landað á Ólafsvík

Umræðufundir smábátaeigenda á Snæfellsnesi með fulltrúum Hafrannsóknastofnunarinnar

 

Smábátafélagið Snæfell á Snæfellsnesi efndi nýlega til funda með sjómönnum á svæðinu og fulltrúum Hafrannsóknastofnunarinnar til að efla samstarf og skilning sjómanna og fiskifræðinga á viðhorfum og verkefnum hvers annars, að því er kemur fram á vef Hafrannsóknastofnunarinnar.

Í stað hefðbundins fyrirlestrahalds fiskifræðinga, var ferðin skipulögð sérstaklega með í huga að sjómenn og fiskifræðingar ræddu saman, að sjómenn miðluðu sinni þekkingu til fiskifræðinga ekki síður en fræðingarnir kynntu sínar rannsóknaniðurstöður eins og venja er. Fundir voru fyrirfram auglýstir frá morgni til kvölds á Hellissandi, Rifi, Ólafsvík, Grundarfirði og Stykkishólmi, auk þess sem nokkur fyrirtæki í sjávarútvegi voru heimsótt til gamans og fróðleiks.

Margt bar á góma, m.a. sú skoðun sjómanna að mikil ýsugengd væri á miðunum, væn ýsa, og því spurning hvort ekki væri eðlilegt að hækka aflamarkið á yfirstandandi fiskveiðiári. Að mati fiskifræðinga er engin innistæða fyrir hækkun aflamarks, þ.e. næstu fjórir árgangar eru ávísun á samdrátt í stofni og enn frekari skerðingu aflaheimilda ef ekki komi til sterkir árgangar á allra næstu árum.

Þá var rætt hvort stofnmæling botnfiska gæfi nægilega marktæka mynd af ástandinu innfjarða og á grunnslóð. Samhljómur var varðandi það að togstöðvar á grunnslóð nægðu ekki til að gefa nákvæmt mat á einstökum svæðum, en þegar grunnslóðin er tekin saman í heild er þróunin lík og rannsóknin því í heild sinni marktæk að mati fiskifræðinga.

Vel kom fram í umræðum hve þorskstofninn hafi verið að styrkjast á undanförnum árum og misserum, ekki síst hve fiskurinn er mun þyngri nú en fyrir fáeinum árum síðan. Einnig að fiskurinn er nú vænni og betur haldinn en um langt skeið.

Sjá nánar á vef Hafrannsóknastofnunarinnar http://www.hafro.is/undir.php?ID=19&nanar=1REF=3&fID=15207