þriðjudagur, 10. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gagnrýni á MSC í Þýskalandi

Guðsteinn Bjarnason
3. mars 2018 kl. 08:00

Þýskir neytendur geta verið harðir í horn að taka og hafa hingað til tekið MSC-vottun fagnandi. MYND/EPA

Vottunarsamtökin Marine Stewardship Council hafa orðið fyrir harðri gagnrýni í Þýskalandi, meðal annars frá tugum vísindamanna og umhverfisverndarsamtaka. Skaðlegar veiðar sagðar fá vottun og sum vottunarfyrirtæki sögð háð hagsmunaaðilum.

Meira en sextíu manns, bæði vísindamenn og fulltrúar hafverndar- og dýraverndarsamtaka sendu í janúar frá sér opið bréf til Marine Stewardship Council (MSC) þar sem fram kemur hörð gagnrýni á vottunarferli og vottunarstaðal MSC fyrir sjálfbærar og ábyrgar fiskveiðar.

MSC fagnar um þessar mundir tuttugu ára afmæli sínu og hefur vottunarstaðall samtakanna notið vaxandi virðingar og útbreiðslu í sjávarútvegi. Gagnrýni hefur þó af og til skotið upp kollinum, og í þessu bréfi er fullyrt að ýmsar veiðar hafi fengið vottun þrátt fyrir að vera skaðlegar umhverfinu. Einnig er gagnrýnt að vottunarfyrirtækin, sem eiga að vera óháðir þriðju aðilar, séu stundum fjárhagslega háð hagsmunaaðilum í sjávarútvegi.

Þetta hvort tveggja stangast algerlega á þær meginreglur sem vottun sjálfbærra fiskveiða grundvallast á. Þýskir neytendur þykja kröfuharðir og geta verið fljótir að skipta um skoðun standist vottunin ekki þær kröfur sem gerðar eru.

Sein viðbrögð
Í opna bréfinu lýsa vísindamennirnir og verndarsamtökin verulegum og vaxandi áhyggjum af bæði vottunarstaðli MSC og ferlinu við að útvega vottun. Þá hafi viðbrögð MSC við gagnrýni ekki verið nægilega snögg.

Bréfið er sent til að fylgja eftir ársgömlu bréfi svipaðs efnis frá 53 alþjóðlegum samtökum og stofnunum. Í þessu fyrra bréfi hafi verið bent á alvarlega galla á staðlinum sem í auknum mæli gerir það mögulegt að votta veiðar sem hafi neikvæð áhrif á umhverfið.

Ítarlegar tillögur um úrbætur fylgja bréfinu, og þær tillögur eru sagðar reistar á rannsóknum og greiningu samtaka og fræðimanna sem hafi sérþekkingu á málefnum hafverndar og vottun sjávarfangs.

Tilefni gagnrýninnar er meðal annars sagt vera vaxandi tilhneiging til þess að MSC-votta og jafnvel endurvotta umdeildar veiðar, þrátt fyrir vitneskju um að þeim veiðum fylgi ósjálfbær hegðun af ýmsu tagi. Þar á meðal eru nefndar veiðar á tegundum í útrýmingarhættu, brottkast og óæskilegur meðafli, eyðilegging á vistsvæðum á hafsbotninum, ofveiði og ósjálfbærar veiðiaðferðir.

„Undanfarinn áratug hafa sérfræðingar og hagsmunaaðilar ítrekað bent á marga af þessum sömu lykilgöllum á MSC-staðlinum,“ segir í bréfinu. Þrátt fyrir það hafi MSC ekki brugðist við og gert þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera á staðlinum. Vissulega hafi ýmsar endurbætur verið gerðar, en enn sé alvarlegur veikleiki innbyggður í kerfið.

Þá er nefnt að breytingum á MSC-staðlinum fylgi jafnan nokkurra ára aðlögunartími, þannig að vart sé þess að vænta að hin skaðlegu áhrif veiðanna muni minnka í bráð þótt staðlinum verði breytt. Hann er endurskoðaður reglulega og er næstu endurskoðun á að ljúka árið 2020.

WWF tekur undir gagnrýnina
Þýskalandsdeild umhverfissamtakanna WWF tekur hiklaust undir þá gagnrýni sem fram kemur í opna bréfinu. Þessi afstaða WWF er ekki síst athyglisverð vegna þess að það var WWF sem fyrir tuttugu árum stofnaði MSC ásamt hollenska stórfyrirtækinu Unilever, sem á sínum tíma var umsvifamikill kaupandi sjávarafurða.

„Við ráðleggjum MSC að taka þessar athugasemdir alvarlega og gera með hraði viðeigandi úrbætur á MSC-staðlinum og vottunar- og eftirlitsferlunum,“ segir í yfirlýsingu frá WWF í Þýskalandi.

WWF segist raunar hafa áður komið efnislega svipaðri gagnrýni á framfæri beint við MSC. Meðal annars segist WWF hafa krafist þess MSC sjái til þess að vottunarfyrirtækin verði ekki fjárhagslega háð sjávarútvegsfyrirtækjum. Á síðasta ári hafi WWF séð ástæðu til að gagnrýna nokkrar vottanir sem ekki hafi staðist kröfur WWF um sjálfbærni.

„MSC stendur á tímamótum og verður að tryggja að vöxtur þess verði ekki á kostnað gæða,“ segir WWF ennfremur. Samtökin segjast enn líta á MSC-vottun sem mikilvægt verkfæri til verndar hafsinu og þess vegna vilji þau að gæði og trúverðugleiki merkisins haldis.

„Sem meðstofnendur teljum við okkur hafa sérstökum skyldum að gegna við að bæta stöðugt MSC-staðalinn.“