mánudagur, 17. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gagnrýni á strandveiðar á fullan rétt á sér

16. september 2011 kl. 14:36

Smábátar

LÍÚ segir orð sjávarútvegsráðherra úr lausu lofti gripin

LÍÚ segir að ummæli sjávarútvegsráðherra í sjónvarpsfréttum í gær séu úr lausi lofti gripin en þar sagði ráðherrann að gagnrýni LÍÚ á strandveiðar hefði verið ómálefnaleg. Ummælin féllu í framhaldi af úttekt Matís á gæðum strandveiðiafla. LÍÚ segir að úttekt Matís sýni þvert á móti að gagnrýni þeirra hafi átt fullan rétt á sér, að því er fram kemur á vef LÍÚ.

LÍÚ segir að samkvæmt skýrslu Matís sýni niðurstöður úttektarinnar að strandveiðifiskur sé misjafn að gæðum. Í samantekt skýrslunnar komi fram að: „Strandveiðibátar stunda sína[r] veiðar yfir heitasta árstímann þegar fiskur er í slæmu ástandi af náttúrulegum ástæðum, þeir halda sig gjarnan nærri landi þar sem fiskur er smár, meira um orm ...; þeir landa jafnan óslægðum afla og stærðardreifing er mikil.“

Skýrsluhöfundar bendi á að: „Aðgengi að ís er takmarkað í sumum höfnum, slægingarþjónusta er almennt ekki lengur fyrir hendi og flutningur á óslægðum afla milli landshluta á þessum árstíma getur farið illa með hráefnið ef aflameðferð hefur ekki verið fullnægjandi.“

Samkvæmt skýrslunni sé kæling sá áhrifaþáttur sem hvað mest hafi að segja um gæði strandveiðiafla. Bent er á að þörf er á að bæta kælingu enn frekar til að fullnægja kröfum sem settar eru fram í reglugerðum.

Af þessu mál ljóst vera að orð ráðherra í sjónvarpsfréttum í gær, þess efnis að gagnrýni frá „einhverjum í LÍÚ“ sé ómálefnaleg, eru úr lausu lofti gripin. Orð ráðherra verða ekki skilin öðruvísi en sem fyrirsláttur og vörn fyrir slæma aflameðferð og brot gegn ákvæðum reglugerðar, segir ennfremur á vef LÍÚ.