mánudagur, 21. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gagnrýnir niðurskurð fjárveitinga til loðnuleitar

29. janúar 2014 kl. 13:42

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar

Framkvæmdastjóri SVN segir 100.000 tonna loðnukvóta gefa hálfan annan milljarð í skatttekjur.

Í ljósi þess að 100.000 tonna loðnukvóti gefur þjóðarbúinu einn og hálfan milljarð króna í skatttekjur er hjákátlegt að Hafrannsóknastofnun hafi ekki efni á að leita loðnu. Þetta sagði Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnnslunnar í viðtali í hádegisfréttum RÚV.

Hafrannsóknastofnun hefur aðeins fjárheimildir til fimmtán daga loðnuleitar á vertíðinni og er þegar búin með sex þeirra. Rannsóknarskipið Árni Friðriksson liggur nú bundið við bryggju á Akureyri og treystir á að loðnuflotinn finni loðnuna. 

Gunnþór segir ekki fara saman að auka skattheimtu á útgerðina og skera um leið niður fé til loðnuleitar: „Og ef við skoðum hvað mikið er undir í þjóðarbúinu með auknum loðnukvóta, þá gæti ég ímyndað mér að 100.000 tonna loðnukvóti myndi gefa þjóðarbúinu um einn og hálfan milljarð í beinum og óbeinum skattekjum, bæði í gegnum veiðileyfagjald og skatta starfsfólks og fyrirtækja. Þannig að það er hjákátlegt að menn hafi ekki efni á að halda úti rannsóknarskipi þar sem kostnaðurinn er um ein og hálf milljón króna á dag".

Útgerðin og Hafrannsóknastofnun hafa undanfarin ár unnið náið saman við loðnuleit. Og Gunnþór segir að loðnuna verði að finna og þar muni útgerðin ekki skorast undan ábyrgð: „En auðvitað er þetta aðeins slæfandi með hvaða hætti við horfum á aðstæður, annarsvegar á mörkuðum og hinsvegar þessi skattlagning sem á greininni er. En við þurfum bara að koma okkur upp úr því og koma loðnunni í verðmæti fyrir þjóðarbúið", segir Gunnþór í viðtali við RÚV.