þriðjudagur, 28. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gangast við brotinu og lýsa yfir vonbrigðum

2. mars 2016 kl. 09:24

Þerney RE (Mynd af vef HB Granda)

HB Grandi sendir frá sér tilkynningu vegna sekta fyrir ýsuveiði í norsku lögsögunni í Barentshafi

Frystitogarinn Þerney RE er einn þeirra þriggja togara sem fengu sekt vegna meiri ýsuveiða sem meðafli en heimild er fyrir í norsku lögsögunni í Barentshafi. Í framhaldi af því hefur HB Grandi sent frá sér tilkynningu þar sem gengist er við brotinu og lýst yfir vonbrigðum.

Tilkynning HB Granda fer hér á eftir: Síðastliðin laugardag komu aðilar frá norsku strandgæslunni um borð í Þerney, skip HB Granda sem er við veiðar við Noreg. Ástæða heimsóknarinnar var veiðitilhögun skipsins á ýsu í síðustu veiðiferð skipsins á þessum slóðum. 

Í samningi á milli Noregs og Íslands um þorskveiðar í norskri landhelgi kemur fram leyfilegt magn af meðafla eins og ýsu. Íslensku skipunum er óheimilt að draga veiðarfæri aftur yfir slóð sem hefur gefið of mikinn meðafla. Það hefur hins vegar ekki verið talið nægilega skýrt t.d. hversu langt frá slóðinni skal farið til að mega hefja veiðar á ný. Við reglulega skoðun norsku strandgæslunnar kom fram að meira var af ýsu sem meðafla með þorski en heimild er fyrir, en meðaflinn var samviskusamlega skráður í veiðidagbækur skipsins. Strandgæsla og lögregla í Tromsö kynntu útgerðinni og skipstjóra gögn málsins og upplýsti aðila um þær reglur sem skipið hefði brotið í umræddri veiðiferð. Gengist var við brotinu án athugasemda og málinu lauk með sektargreiðslu. Eftir að samkomulag náðist hélt Þerney aftur til veiða. HB Grandi leggur mikla áherslu ábyrga umgengni um auðlindir sjávar bæði innan íslenskrar landhelgi sem utan. Því er þessi niðurstaða norsku strandgæslunnar sem við véfengjum ekki félaginu mikil vonbrigði og í framhaldi verður farið gaumgæfilega yfir málið til að koma í veg fyrir að sagan endurtaki sig.