sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gasolíuverð til fiskiskipa lækkar heldur í íslenskum krónum

28. nóvember 2008 kl. 19:20

Útgerðir landsins voru að sligast undan himinháu olíuverði stóra hluta þessa árs.

Nú hefur gasolíuverð á alþjóðlegum markaði hríðlækkað en á móti kemur hrunið á gengi íslensku krónunnar sem étur upp lækkunina að stórum hluta.

Eigi að síður er gasolíuverð til íslenskra fiskiskipa nokkru lægra nú en það var síðastliðið sumar, að því er Sveinn Hjörtur Hjartarson hagfræðingur LÍÚ segir í nýjustu Fiskifréttum.

Að sögn Sveins Hjartar kostaði tonnið af gasolíu á Rotterdammarkaði rúmlega 95.000 íslenskar krónur að meðaltali í júnímánuði síðastliðnum. Nú um miðjan nóvember er verðið 75.000 íslenskar krónur.

Verðþróun á gasolíu í erlendri mynt síðustu misserin var sú að tonnið kostaði að meðaltali 600 dollara á árinu 2007. Fyrstu níu mánuði yfirstandandi árs var verðið rétt undir 1.000 dollurum en lækkaði svo niður í 550 dollara þegar líða tók á október.

Íslendingar njóta hrunsins ekki nema að litlu leyti því gengi dollarans núna er 140 krónur en var að meðaltali rúmar 79 krónur í júní síðastliðnum.