mánudagur, 22. júlí 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gefur norsku þjóðinni fullkomið hafrannsóknaskip

11. ágúst 2018 kl. 07:00

Kjell Inge Rökke ásamt Bill Clinton þáverandi Bandaríkjaforseta um borð í rækjubát Rökke í Ósló árið 2007. MYND/EPA

Draumur vísindamanna að rætast


Skrifað hefur verið undir samninga við Vard skipasmíðastöðina í Noregi um smíði á fullkomnasta hafrannsóknaskipi heims. Skipið, sem verður 181 metra langt, verður ríkulega búið nýjustu tækni og er sagt draumur allra vísindamanna sem nú er að rætast. Það er einn ríkasti maður heims, Kjell Inge Røkke, sem ætlar að gefa norsku þjóðinni skipið. Það á verður smíðað í Noregi og Rúmeníu og verður afhent árið 2020.

gugu@fiskifrettir.is

Í skipinu geta farið fram mælingar í lofti og sjó og allt niður á 6.000 metra dýpi. Þá verður hægt að taka sýni allt að 20 metra ofan í hafsbotninn á öllu þessu dýpi.

Á för sinni um höfin mun skipið „veiða upp“ plast úr hafinu og því verður brennt um borð með sérstakri tækni sem sleppir ekki frá sér skaðlegum lofttegundum. Hægt verður að bræða allt að fimm tonnum af plasti á sólarhring.

Kjell Inge Røkke veitir sjaldan viðtöl en hann ræddi við norska stórblaðið Aftenposten um verkefnið. Hann segir að gerðar verði tilraunir til að fanga plast úr höfunum  og bætir því við að það verði að taka þeirri umhverfisvá sem steðji að heiminum alvarlega.

Røkke hefur ekki í hyggju að hagnast á verkefninu. Þvert á móti greiðir hann úr eigin vasa fyrir smíði á skipinu og búnaði og kostar rekstur þess með 30 manna áhöfn og allt að 60 vísindamönnum.

Vill gefa samfélaginu auð sinn

„Hafið hefur veitt mér ómæld tækifæri. Ég er mjög þakklátur fyrir það,“ segir Røkke í viðtalinu.

„Ég vil gefa samfélaginu bróðurpartinn af því sem ég hef eignast. Skipið er liður í þeim áformum. Hugmyndin um skip af þessu tagi hefur verið að þróast á undanförnum árum en að undanförnu hefur hún mótast skýrar,“ segir Røkke, sem er tíundi ríkasti maður Noregs með eignir upp á 17,2 milljarða norskra króna, rúmlega 230 milljarða ÍSK.

Røkke hyggst fara óhefðbundnar leiðir við útgerð skipsins. Notkun þess verður þrískipt; þriðjungur siglingatímans fellur í skaut vísindamanna, annan þriðjunginn verður skipið leigt út eða lánað til leiðangra af margvíslegu tagi og loks verður það leigt út sem lúxussnekkja til þeirra sem hafa næg auraráð. Tekjurnar af útleigu skipsins draga úr rekstrarkostnaði þess og renna jafnframt til vísindastarfs og kaupa á rannsóknatækjum.

Sjö rannsóknastofur

Undir skipinu verður stór brunnur þaðan sem hægt verður koma út rannsóknabúnaði og smákafbátum í öllum veðrum. Í skipinu verða drónar sem gera mælingar í lofti en líka neðansjávar. Allar gerðir af sónartækjum og straummælingatækjum verða í skipinu þar sem fjöldi vísindamanna í mismunandi greinum geta samtímis unnið að rannsóknaverkefnum.

Stór fyrirlestrasalur verður í skipinu og auk þess sjö rannsóknastofur búnar nýjasta búnaði. Á þilfari verður rými fyrir 32 gáma sem meðal annars gegna hlutverki sérstakra rannsóknastofa fyrir vísindamenn.