miðvikudagur, 25. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Geislavirkni á botni Noregshafs

Guðsteinn Bjarnason
23. júlí 2019 kl. 07:00

Geislavirkni mæld í loftræstiröri kjarnorkukafbátsins. Mynd/Havforskningsinstituten

Fylgst með sokknum kjarnorkukafbát.

Norska Hafrannsóknarstofnunin fullyrðir að hvorki fiskum né fólki stafi nein hætta af geislavirkum leka sem berst frá flaki sovéska kjarnorkuafbátsins Komsomolets.

Kafbáturinn liggur á hafsbotn norður af Noregi, um það bil miðja vegu milli Noregs og Svalbarða. Þar sökk hann fyrir þrjátíu árum hefur með hléum verið fylgst með honum síðan.

Nú síðast héldu norskir og rússneskir vísindamenn þangað á norska rannsóknarskipinu G.O. Sars. Mælingar voru gerðar í og við loftræstirör sem vitað var að geislavirkur leki barst frá.

Í ljós kom að geislavirknin mældist allt upp í 100 bekerel í hverjum lítra. Þetta er mun meira en í Noregshafi almennt, þar sem geislavirkni mælist að meðaltali um 0,001 bekerel í hverjum lítra.

Norsku vísindamennirnir segja engu að síður að engin hætta stafi af þessu.

Hilde Elise Heldal, sem stýrði rannsóknarleiðangrinum, bendir á að norskar reglur um geislavirkni í matvælum kveða á um að hún megi ekki verða meiri en 600 bekerel á hvert kíló, sem er sex sinnum meira en mældist við kafbátinn. Geislavirknin þynnist auk þess fljótt út i hafinu í kring.

Komsomolets sökk þarna þann 7. apríl árið 1989 eftir að eldur braust út vélarrúmi. Alls fórust 42 skipverjar af 69 manna áhöfn. Kafbáturinn var þá fimmtán ára gamall.

Alls munu flök af níu kjarnorkukafbátum liggja á hafsbotni á norðurhveli jarðar. Sjö þeirra eru sovéskir eða rússneskir, en tveir bandarískir.