sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gerbreyttir Evrópuflutningar á ferskum fiski

Guðjón Guðmundsson
17. maí 2021 kl. 08:00

Hjörtur Jónsson hafnarstjóri við lóðsbátana Herdísi (áður Jötunn) og Ölver. Mynd/gugu

Þorlákshöfn sneri vörn í sókn.

Hjörtur B. Jónsson var lengi skipstjóri á bátum sem gerðir voru út frá Þorlákshöfn en hefur síðastliðin sjö ár verið hafnarstjóri í Þorlákshöfn. Hann byrjaði til sjós árið 1972 en fór í land um aldamótin. Áður en hann settist í stól hafnarstjóra rak hann fyrirtækið Plastmótun ehf. um tíma, sem vann meðal annars girðingastaura úr endurunnum veiðarfærum.

Þorlákshöfn hafði mátt þola talsverðar þrengingar. Fyrirtæki höfðu lagt upp laupana og talsverður kvóti farið af staðnum. HB Grandi keypti kvótann af Hafnarnesi-VER ehf. og Skinney á Hornafirði keypti Auðbjörgu ehf. en setti upp ferskfiskvinnslu á staðnum. Fyrirtækið landar nú mun meiri afla í Þorlákshöfn eftir að þessi kaup gengu í gegn. Skinney  og Þinganes hafa til að mynda landað í Þorlákshöfn í allan vetur. Þorlákshöfn fór líka úr því að vera aðalhöfn Herjólfs í það að verða varahöfn sem tryggir þó höfninni ákveðnar tekjur á hverju ári. Svo tók við uppbyggingarstarf sem stendur enn yfir.

Helmingi hærri aflagjöld

„Við höfum líka náð til okkar aðkomuskipum. Frosti ÞH er hérna til dæmis alltaf á veturna og Samherjatogararnir hafa verið hérna talsvert. Það var algjört met hjá okkur í fyrra. Aflagjöldin 2019 voru 42 milljónir kr. en 74 milljónir á árinu 2020. Það stefnir í að þau verði hátt í 100 milljónir á þessu ári,“ segir Hjörtur.

Auk aukningar í löndunum hefur fiskútflutningur stóraukist frá Þorlákshöfn. Hjörtur segir að stór íslensk sjávarútvegsfyrirtæki séu farin að líta hýrum augum til Þorlákshafnar með staðsetningu með fyrirspurnum um lóðir. Nóg er landrýmið og tilbúnar skipulagðar lóðir á hafnarsvæðinu. Framundan eru miklar hafnarframkvæmdir sem munu leiða til enn betri aðstöðu fyrir flutningaskip og fiskiskip í höfninni.

Hjörtur segir að fáir staðir á landinu séu betur fallnir til ferskfiskvinnslu. Stutt er upp á Keflavíkurflugvöll fyrir þann fisk sem fer með flugi og tvö flutningaskip eru í ferðum milli Þorlákshafnar og Evrópu í hverri viku. Öllu er ekið inn í skipin og það tekur ekki nema um átta tíma að lesta og losa skipin.

„Það er ekkert sveitarfélag á landinu sem liggur betur við Evrópuflutningum en Þorlákshöfn. Ferskfiskútflutningur hrópar á hraðari afsetningu og afhendingar öryggi, í því lá okkar sóknarfæri. Siglingaleiðin frá Reykjavík til Evrópu er átta klukkustundum lengri en frá Þorlákshöfn og samtals 16 klukkustundum lengri fram og til baka. Það kostar sitt að sigla í 16 klukkustundir en það er ekki stóra málið í öllu samhenginu. Með því að sigla frá Þorlákshöfn næst Evrópurúnturinn með einu skipi. Það næst á einni viku að sigla frá Þorlákshöfn til Rotterdam, Færeyja og aftur til Þorlákshafnar. Mykines fer héðan á föstudagskvöldum og er komið hingað aftur á föstudagsmorgni viku síðar og Mistral siglir á mánudegi og er komið til baka á mánudegi viku síðar. Þessi skip eru hraðskreið og ganga upp í 21 mílur á klst. ef þörf krefur. Svo skiptir afhendingaröryggið öllu máli í ferskfiskvinnslu,“ segir Hjörtur.

Slátrað á föstudegi – Evrópa á mánudegi

Síðustu vagnarnir sem fara í skipin eru yfirleitt lax að vestan og ferskur fiskur að norðan. Skipin bíða eftir þessum sendingum og sleppa ekki fyrr en varan er komin um borð. Þetta gerir það að verkum að slátrun á laxi á Vestfjörðum getur staðið yfir alveg fram til kl. 14 á föstudegi og afurðirnar eru komnar um borð í Mykinesið um kl. 22 um kvöldið. Skipið er svo komið til Rotterdam um kl. 14 á mánudegi.

Margföld umsvif

Mistral og Mykines eru engin smásmíði. Hæðin á Mykinesinu er á við fimm hæða fjölbýlishús og skipin taka á sig mikinn vind. Þegar staðið er efst horfa menn ofan á Kuldabola, stóra háreista frystivöruhótelið, sem hefur verið eins og kennileiti við höfnina. Hjörtur segir að á þessum stórum skipum séu færeyskir skipstjórar sem séu með eindæmum útsjónarsamir og flinkir skipstjórnendur. Þeir hafa æft sig í siglingahermi í Danmörku að koma inn til Þorlákshafnar á tólf mílna ferð og ná svo að stoppa skipið á einni og hálfri skipslengd. Skipin eru enda gríðarlega aflmikil með um 20.000 hestafla vélum.