sunnudagur, 12. júlí 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Geta bætt fyrir raskið

Guðsteinn Bjarnason
13. apríl 2019 kl. 07:00

Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins. Aðsend mynd.

Íslenska kalkþörungafélagið er með 30 manns í vinnu á Bíldudal og hyggst innan fárra ára hefja starfsemi í Súðavík og á Stykkishólmi.

Kalkþörungaverksmiðjan á Bíldudal er sú eina á landinu. Þar vinna tugir manna að því að koma kalkþörungum af hafsbotni til útflutnings, þar sem hann er notaður í dýrafóður og fæðubótarefni ýmis konar. Fyrirhugað er að auka verulega við starfsemina á næstu árum.

„Við erum með 30 manns í vinnu á Bíldudal og höfum þurft að bæta við okkur fólki,“ segir Halldór Halldórsson, forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins. „Við réðumst í að byggja átta íbúðir þar í fyrra. Það voru fyrstu íbúðabyggingarnar þar síðan 1989.“

Halldór hefur verið forstjóri Íslenska kalkþörungafélagsins síðan í sumar. Félagið er í eigu írska fyrirtækins Marigot Ltd., sem lengi vel stundaði kalkþörungavinnslu á heimaslóðum en þurfti að leita á önnur mið vegna þess að kalkþörungarnir þar voru nánast uppurnir.

Talið er að um 21,5 milljón rúmmetra af kalkþörungi sé að finna á botni Arnarfjarðar, líklega um 100 milljón rúmmetrar í Ísafjarðardjúpi og töluvert magn er einnig í Húnaflóa. Eitthvað er einnig í Eyjafirði og á Austfjörðum en þar er magnið minna.

Fyrirhuguð stækkun
Íslenska kalkþörungafélagið hefur starfsleyfi til að vinna allt að 85 þúsund tonn árlega úr Arnarfirði til ársins 2033, samtals allt að 2,5 milljónir tonna.

„Við megum vinna í verksmiðjunni á Bíldudal 85 þúsund tonn á ári, en ég er að vinna að stækkun í 120 þúsund tonn,“ segir Halldór. „Það rúmast alveg innan þessa 2,5 milljóna tonna leyfis því við höfum ekkert framleitt svo mikið árin á undan. Svo erum við að vinna að umhverfismati í Ísafjarðardjúpi núna og höfum áhuga á að setja niður nýja kalkþörungaverksmiðju í Súðavík.“

Írska fyrirtækið er einnig með þangverksmiðju á eyjunni Lewis í Skotlandi og hefur áhuga á að koma sér fyrir í Breiðafirði með þangvinnslu.

„Við höfum verið að ræða við Stykkishólmsbæ og erum líka að skoða aðra möguleika við Breiðafjörðinn. Ráðgjöfin við Breiðafjörð er upp á 40 þúsund tonn af þangi á ári, en aldrei hafa verið tekin meira en 18 þúsund tonn.“

Hægvaxta á hafsbotni
Kalkþörungar vaxa á hafsbotni og Halldór segir ekki nema eðlilegt þótt margir viti lítið um þessa tegund.

„Í sumum tungumálum er þetta kallað einhverju kóralnafni. Þetta er svolítið kórallegt, en er samt ekki kórallar heldur þörungur. Töluvert ólíkur þangi og þara sem við þekkjum. Hann kemur sér fyrir á steinum eða klöppum á hafsbotni og er mjög hægvaxta. Þar vex hann og þegar neðsti hluti hans deyr þá kalkgerist hann. Þá verður til þessi afurð sem er bara eins og grjót. Við sjáum þetta aldrei því það vex á hafsbotni en ég veit að rækjusjómenn, bæði á Ísafjarðardjúpi og við Arnarfjörð, trúlega á Húnaflóa líka, kannast við að hafa fengið þetta í trollið.“

Einungis dauðir kalkþörungar eru nýttir, ekki þeir sem eru lifandi. Íslenska kalkþörungafélagið vildi engu að síður gera ákveðna tilraun með að taka lifandi kalkþörunga upp og færa þá til.

„Fyrir tveimur árum var smíðaður plógur í samstarfi við Hafró. Hann var dreginn á eftir bát stutta vegalengd í gegnum lifandi kalkþörungabreiðu. Hann skóf þannig upp lifandi kalkþörunga og þá var bara dauða efnið eftir fyrir neðan. Lifandi kalkþörungarnir voru síðan settir aftur út á svæði þar sem ekkert var lifandi. Svo höfum við fylgst með því í tvö ár, og það er allt lifandi. Þannig að við teljum okkur hafa sýnt fram á að það er hægt að endursetja þá ef við þurfum þess.“

Afmörkuð svæði
Kalkþörungafélagið er með þörungatöku á tveimur svæðum í Arnarfirði, annars vegar við Langanes og svo í Reykjafirði.

„Við erum að taka bara á tveimur svæðum, og höldum okkur alltaf á þessum sömu svæðum. Þetta eru svo þykkir haugar að við þurfum ekkert að vera á mörgum svæðum. Þetta er allt upp í ellefu metra þykk hella á hafsbotni,“ segir hann.

„Kalkþörungurinn vex auðvitað ekki jafn hratt og við tökum hann, þess vegna verður aldrei leyft að taka allt. Hins vegar virðist vera nóg til af þessu efni, miðað við þær rannsóknir sem gerðar hafa verið.“

Reiknar með umræðu
Halldór reiknar með því að einhver umræða fari af stað í tengslum við væntanlegt umhverfismat í Djúpinu. Eins og margir Vestfirðingar talar Halldór um að fátt megi gera þar til atvinnusköpunar og framfara án þess að gagnrýnt sé.

„Ég held að það sé alveg sama hvað við gerum, hvort sem við ætlum að leggja veg á Vestfjörðum, virkja, rækta lax í kvíum, eða að nota dautt kalkþörungaset. Ég held það verði alltaf einhverjir sem muni setja sig upp á móti því.“

Hann segir þó lítið rask vera af kalkþörungavinnslunni.

„Auðvitað verður til svolítið grugg þegar verið er að dæla þessu upp,“ segir hann.

Orkustofnun nefnir það í umsögn sinni að mikið sé af lifandi kalkþörungum í Ísafjarðardjúpi.

„Við teljum okkur hafa sýnt fram á að við getum fært þá til. Svo ber líka að hafa í huga að rækjutroll hafa örugglega farið yfir miklu stærri slóð þarna heldur en við munum nokkru sinni gera. Við erum bara að tala um að fara niður á ákveðinn blett og dæla okkur þar niður þangað til við kannski skiljum einn metra eftir af setinu, og þá eru komin skilyrði þar að flytja kalkþörung þangað og hann geti þá byrjað að vaxa aftur.“

Heppnir með Írana
Íslenska kalkþörungafélagið á rætur að rekja til ársins 1995 þegar Pétur Bjarnason, þá varaþingmaður Framsóknarflokksins, lagði fram þingsályktunartillögu um tilraunavinnslu á kalkþörungum í Arnarfirði og Húnaflóa. Pétur var annars lengi skólastjóri og fræðslustjóri á Vestfjörðum og síðar framkvæmdastjóri SÍBS.

„Pétur er Bílddælingur og maður sér hann stundum þar á götunum,“ segir Halldór.

Íslenska kalkþróunarfélagið ehf. var stofnað árið 2001, að frumkvæði Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða. Bæjarfélagið Vesturbyggð og bæjarfulltrúar þar beittu sér einnig fyrir stofnun félagsins.

„Bíldudalur var þá í mjög mikilli lægð. Atvinnuþróunarfélagið tók að sér að kaupa alls konar rannsóknir og kemst að því að þetta er í vinnanlegu magni. Atvinnuþróunarfélagið varð sér síðan úti um vinnsluleyfi til ársins 2033. Að lokum komu Írarnir. Þeir höfðu verið með vinnslu úti á Írlandi og þar var lítið eftir af kalkþörungum.“

Írska fyrirtækið Marigot er með höfuðstöðvar í Cork á Írlandi og átti til að byrja með 75 prósent í Íslenska kalkþörungafélaginu, en á nú allt fyrirtækið.

„Við erum mjög heppnir að vera í eigu Íranna því þar er mikil vöruþróun,“ segir Halldór. „Við erum ekkert lengur að framleiða áburð. Við erum bara í dýrafóðri og manneldishlutinn er að stækka um 20 prósent á ári.“

Minna gas úr kúnum
„Mestallt sem við framleiðum sendum við í tonnpokum með flutningaskipi til Írlands. Sumt sendum við beint á kaupendur í gámum. Sumt af því fer í dýrafóður umpakkað í 20 kílóa poka, og þetta er mjög vinsælt. Við erum til dæmis að selja til bænda í Sádi-Arabíu, og þegar mjólkurkú er gefið þetta þá gerist það að fituinnihaldið í mjólkinni verður hærra. Það er hátt ph-gildi í þessu þannig að maginn verður rólegri, það er betri tannheilsa og þær losa 25 til 30 prósent minna gas út af þessu háa ph-gildi.“

Íslenskir bændur kaupa einnig fóðurblöndu beint af fyrirtækinu, en það er innan við hálft prósent af framleiðslunni sem fer til þeirra.

Úr kalkþörungunum er einnig unnið duft til manneldis, selt undir nafninu Aquamin.

„Það hefur sýnt sig að það styrkir bein, liðamót og meltingu,“ segir Halldór og vísar til þess að meira en 40 ritrýndar greinar hafa birst um Aquamin. „Út um allan heim eru matvælaframleiðendur og heilsuvöruframleiðendur sem kaupa þetta efni af okkur og blanda í sína framleiðslu. Sjálf framleiðum við tvær gerðir af töflum og seljum á vefnum. Svo erum við að selja til Hafkalks á Bíldudals.“

Írarnir höfðu samband
Halldór Halldórsson var bæjarstjóri á Ísafirði í tólf ár, frá 1998 til 2010, og síðan borgarfulltrúi í Reykjavík á árunum 2014 til 2018.

Hann er Vestfirðingur að uppruna, menntaður viðskiptafræðingur, með MBA-gráðu og meistaragráðu í mannauðsstjórnun. Á yngri árum var hann á sjó í Grindavík og um tíma verkstjóri hjá Þorbirni hf. í Grindavík.

Fljótlega eftir að hann tilkynnti að hann gæfi ekki kost á sér í síðustu borgarstjórnarkosningum höfðu Írarnir samband.

„Þá voru þeir aðallega að hugsa um að fara að stækka. Þeir voru byrjaðir að vinna að umhverfismati í Ísafjarðardjúpi og voru að koma sér fyrir við Breiðafjörð. Þeir vildu fá mína þekkingu inn í það og ráða mig yfir umsvifin á Íslandi, en svo hefur það þróast þannig að ég hef einnig verið að sinna mikið verksmiðjunni á Bíldudal og uppstokkun hennar.“