sunnudagur, 17. janúar 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Geta ekki notað óvottaðan kolmunna

Guðsteinn Bjarnason
23. mars 2020 kl. 12:01

Gísli Gíslason

Norskir fóðurframleiðendur þrýsta á um strandríkjaviðræður

Um næstu áramót má búast við því að MSC-vottun á veiðum úr norsk-íslenska síldarstofninum falli niður. Kolmunnaveiðar gætu einnig farið sömu leið.

„Makríllinn missti vottunina í fyrra og það er búið að gefa út að síldin missi vottunina nú í lok árs ef ekki verða úrbætur,“ segir Gísli Gíslason, svæðisstjóri MSC, í spjalli við Fiskifréttir. „Svo er það kolmunninn. Nú er verið að bíða eftir því hver verður niðurstöður vottunarstofa í sinni árlegu úttekt með kolmunnann, og það er ekkert ólíklegt að það séu svipaðar aðstæður í kolmunnanum. Þeir eiga að ljúka sínum skilyrðum í lok þessa árs.“

MSC-vottanir voru lengi vel harla umdeildar hér á landi en á seinni árum hefur útgerðin lagt mikið kapp á að fá vottun á nánast allar veiðar hér.

„Ef þú tapar MSC, þá taparðu viðskiptavinum,“ sagði fulltrúi fóðurframleiðands Skretting, sem sat úti í sal í pallborðsumræðum á sjávarútvegsráðstefnunni 2020 North Atlantic Seafood Forum í Noregi nýverið. „Vottaðar sjávarafurðir eru ekki lengur markmið hjá okkur, heldur krafa.“

Fréttavefurinn Undercurrentnews greindi frá þessu, og þar kom einnig fram að Mads Martinsen, vöruþróunarstjóri hjá Skretting Norway, hafi ítrekað það í erindi sínu á ráðstefnunni að vottað hráefni sé skilyrðislaus krafa nú orðið.

„Þannig að ef vottun á veiðar tapast þá getum við ekki notað þær í vörurnar,“ er haft eftir honum.

Veiðar úr uppsjávartegundunum þremur í Norðaustur-Atlantshafi eru allar sama marki brenndar. Strandríkin hafa undanfarin ár ekki komið sér saman um veiðarnar. Sjálfbær fiskveiðistjórnun er hins vegar einn af þeim þáttum sem þarf að vera í lagi til þess að MSC-votti veiðar.

Þrýstingur frá markaðnum

„Strandríkin eru sammála um hver heildaraflinn eigi að vera en svo eru þau ekki sammála um hvernig eigi að skipta kökunni,“ segir Gísli.

Gísli segist hafa orðið var við það að fóðurframleiðendurnir séu farnir að leggja áherslu á þetta.

„Þeir hafa í það minnsta verið að hafa samband við okkur á undanförnum vikum og mánuðum og spyrja hvað þeir geta lagt til til þess að vottanirnar viðhaldist. Við gerum þá fyrst og fremst upplýst þá um hver er ferillinn í vottuninni og hvað þurfi til að loka þessum skilyrðum og þess háttar,“ segir Gísli.

„Teorían á bak við MSC er að markaðurinn kalli eftir vottun með því að kaupa frekar úr sjálfbærum veiðum. Þannig verði á endanum öll heimshöfin veidd með sjálfbærum hætti.“

Kolmunninn fer allur í fiskimjöl og er raunar uppistaðan í fiskimjöls- og fóðurframleiðslu Norðmanna og fleiri landa.

„Þetta varð til þess að það kviknaði á fóðurframleiðendunum úti,“ segir Gísli. „Fóðurframleiðendur framleiða fyrir fiskeldið sem er með vottanir, ASC eða aðrar vottanir, sem yfirleitt gera ráð fyrir því í sínum stöðlum að fiskafóðrið komi úr sjálfbærum veiðum. Þeir fóru þess vegna að hafa áhyggjur af því að ef kolmunninn fer og síldin líka þá eru þeirra vottanir líka að falla.“

Vilja lausn

Gísli segir að 80 prósent af þeim kolmunna sem við flytjum út fari til Noregs. Þar séu það fjórir til fimm kaupendur sem taka við honum. Auk þess fari um 40 prósent af síldarafurðum okkar til Noregs, og það fer að uppistöðu í mjöl líka, bæði afskurður og annað.

„Þeir vilja vekja athygli á þessu máli og hvetja aðila til þess að snúa bökum saman og finna lausn á þessu.“

Gísli segir að nýlega hafi samtök evrópskra fiskimjölsframleiðenda sent bréf til stjórnvalda þar sem þau vekja athygli á þessu máli. Þau hvetja til þess að haldnir verði strandríkjafundir þar sem menn reyni að ná samkomulagi.

Þá hafi breska verslanakeðjan Tesco í haust sent frá sér áskorun til stjórnvalda um að finna lausn á þessu máli. Margir stórmarkaðir í Bretlandi og víðar í Evrópu hafi undirritað þetta bréf.

Lítið sem ekkert virðist hins vegar hafa verið að gerast af hálfu stjórnvalda.

Strandríkjafundir eru jafnan haldnir í október ár hvert. Árum saman hefur  ekkert gengið að ná samkomulagi þar, og engin áform virðast vera um að halda aukafundi nú út af yfirvofandi vottunarmissi. 

Fréttin birtist fyrst í Fiskifréttum 19. mars