laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Geta nú notað raforku í stað olíu

24. janúar 2014 kl. 11:00

Forsvarsmenn Skinneyjar-Þinganess, Landsnets og RARIK ásamt Ásgerði Gylfadóttur bæjarstjóra.

Nýjar framkvæmdir í raforkukerfinu bæta hag fiskimjölsverksmiðjunnar á Hornafirði.

Bæjarstjóri Hornafjarðar, Ásgerður Gylfadóttir, tók í gær formlega í notkun nýja aðveitustöð RARIK á Höfn þegar spennu var hleypt inn á rafskautsketil í fiskimjölsverksmiðju Skinneyjar-Þinganess. Þar með skapast möguleiki á notkun raforku í stað olíu í verksmiðjunni.

Aðeins er rúmt ár frá því að Landsnet og RARIK gengu frá samkomulagi við Skinney-Þinganes um aukna afhendingu á raforku fyrir fiskimjölsverksmiðjuna á Höfn. Eins og kunnugt er hafa uppsjávarfyrirtækin, ekki síst á Austurlandi, fært sig í vaxandi mæli frá því að nota olíu yfir í notkun á innlendri raforku. Hafa nú allar fiskimjölsverksmiðjur frá Vopnafirði suður til Hornafjarðar skipt yfir á rafmagn í stað olíu, sem getur samt þurft að grípa til þegar byggðalínan er fulllestuð og annar ekki eftirspurn.