sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gleymdi að tilkynna lok veiða

1. febrúar 2013 kl. 15:05

Varðskipið Týr (Mynd: Jón Páll Ásgeirsson)

Selvaag Senior gert að greiða sekt en mál Manons enn óafgreitt

Norska loðnuskipið Selvaag Senior var kært um síðustu helgi en það hafði hætt veiðum og haldið inn til löndunar á Eskifirði án þess að tilkynna stjórnstöð Landhelgisgæslunnar um það eins og ber að gera samkvæmt reglugerð. Samkvæmt upplýsingum sem Landhelgisgæslan hefur lauk því máli með dómsátt upp á 400 þúsund krónur, að því er fram kemur á vef Gæslunnar.

Landhelgisgæslan hafði afskipti af öðru norsku loðnuskipi, Manon, nýlega en mælingar varðskipsmanna á miðunum leiddu í ljós að afli um borð virtist meiri en skipið hafði tilkynnt um að það hefði veitt innan íslensku efnahagslögsögunnar. Var þá skipinu vísað til hafnar á Eskifirði fyrir meintar ólöglegar veiðar . Þegar afli var vigtaður upp úr skipinu á Eskifirði reyndist skipið vera með tæplega 200 tonnum meira af loðnu í lestum sínum en tilkynnt var. Landhelgisgæslan hefur þær upplýsingar frá sýslumanninum á Eskifirði að mál skipstjórans á Manon hafi ekki verið tekið fyrir. 

Þetta stangast á við frétt í Fréttablaðinu í dag þess efnis að máli Manons hafi lokið með dómsátt upp á 400 þúsund krónur. Sú frétt var þá væntanlega  á misskilningi byggð, en til hennar var vitnað hér á vefnum fyrr í dag.