þriðjudagur, 21. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð úthafskarfavertíð á endaspretti

24. júlí 2009 kl. 12:00

Veiðar á úthafskarfa hafa gengið mjög vel og mun kvótinn innan línu á Reykjaneshrygg að öllum líkindum klárast í þessari viku eða í byrjun þeirrar næstu, að því er Rúnar Þór Stefánsson, útgerðarstjóri hjá HB Granda, sagði í samtali við Fiskifréttir.

Þegar rætt var við Rúnar fyrr í vikunni var eftir að veiða innan við þúsund tonn af um 15 þúsund tonna kvóta íslensku skipanna. Aðeins fjögur skip voru þá á miðunum, Örfirisey RE, Kleifaberg ÓF, Freri RE og Mánaberg ÓF. Kvóti HB Granda er um 4.600 tonn og sagði Rúnar að búið væri að veiða þau og ríflega það.

Karfinn hefur að mestu leyti haldið sig innan íslensku lögsögunnar þannig að erlend skip hafa ekki haft tök á því að blanda sér í veiðarnar af neinum krafti. Nokkur erlend karfaskip eru enn að veiðum utan íslensku landhelgislínunnar og sagði Rúnar að afli þeirra hefði verið mjög tregur.

Íslendingar eiga einnig kvóta í úthafskarfa sem heldur sig lengra suður í höfum. Undanfarin ár höfum við ekki nýtt okkur þann kvóta að neinu marki og sagðist Rúnar ekki reikna með því að hann yrði heldur nýttur í ár.