sunnudagur, 13. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð veiði gaus upp í Holunni

4. maí 2008 kl. 11:47

Veiðar á úthafsrækju eru hafnar í Kolluálnum. Hamar SH hefur fengið góðan afla þar að undanförnu.

„Hamar fór á veiðar strax eftir hrygningarstoppið og veiðin hefur verið vonum framar. Hann landaði 36 tonnum á sumardaginn fyrsta og er með eitthvað meira núna en báturinn er að landa eins og er. Þeir hafa aðaðallega haldið sig í svokallaðri Holu í Kolluálnum en auk Hamars eru tveir aðrir bátar á svipuðum slóðum, Sigurborg og Gunnbjörn, og mér skilst að þeir séu að veiða ágætlega líka,“ segir Kristinn Jón Friðþjófsson, útgerðarmaður Hamars, þegar Fiskifréttir náðu tali af honum í byrjun vikunnar.

Kristinn segir að góð veiði á rækju í Holunni sé þekkt á þessum árstíma.

„Rækjan er í hrygningarástandi og þjappar sér saman í Holunni þegar hún er að sleppa hrognunum og veiðist því vel á meðan. Eftir að hrygningu líkur dreifir rækjan sér og fer lengra út í Kolluálinn og veiðin verður minni. Veiðin nú er ekkert einsdæmi því þetta gerist tímabundið á hverju ári og getur staðið eitthvað fram í maí. Rækjan sem Hamar hefur fengið er stór eða um 160 stykki í kílóinu sem telst bara gott. Við löndum hjá Fisk-Seafood í Grundarfirði og fáum 140 krónur fyrir kílóið en það mætti alveg vera meira,“ segir Kristinn.