sunnudagur, 25. ágúst 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð byrjun í Eyjum

Guðsteinn Bjarnason
16. maí 2019 kl. 14:00

Hrafn Sævaldsson á veiðum á bát sínum, Bravó VE. MYND/Hrafn Sævaldsson

Hálfur mánuður er nú liðinn frá því strandveiðitímabil sumarsins hófst

Strandveiðimenn í Vestmannaeyjum eru hæstánægðir með aflann fyrstu dagana. Ekki er þó reiknað með að þessi góðu aflabrögð endist mikið lengur.

„Bátarnir hafa almennt fengið skammtinn,“ segir Hrafn Sævaldsson, formaður Farsæls, félags smábátaeigenda í Vestmannaeyjum.

„Það hefur verið mjög gott aðgengi að fiski. Hann er hérna nálægt, þannig að stutt er að fara og túrarnir stuttir. Hringurinn höfn í höfn hefur farið niður í tvo til þrjá tíma.“

Þessi óskastaða á þó ekki eftir að endast lengi.

Hrygningarfiskur hörfar
„Hrygningarþorskurinn fer að fara héðan núna, enda höfum við talað um að það kæmi sér mjög vel hérna hjá okkur að hægt væri að byrja á strandveiðunum fyrr, á meðan vertíðarfiskurinn er hérna.“

Landssamband smábátaeigenda hefur lagt mikla áherslu á að reglunum verði breytt þannig að hefja mætti þær í byrjun apríl, sem væri mikilvægt fyrir veiðina á D-svæðinu fyrir sunnan land og suðvestan. Hrafn er í stjórn Landssambandsins, sem einnig hefur sagt að mikilvægt væri fyrir strandveiðimenn fyrir austan land og norðaustan að mega veiða fram í september.

Hrafn segir að þótt þorskurinn fari frá Eyjum eigi hann þó til að koma aftur í einhverjum mæli, þannig að strandveiðarnar geta skilað einhverju fram eftir sumri.

„Við erum náttúrlega á ufsasvæði hérna og þorskurinn leitar líka í síldarhrogn, kemur oft í síld sem er hérna yfir sumarið. Það hafa alveg komið ágætis ár, en á heildina litið ef maður horfir yfir lengra tímabil þá er oft lítið yfir sumarið eftir að fiskurinn hefur farið. En svo er þetta líka bara erfitt hafsvæði. Við erum á opnu úthafi þannig að við flýjum ekkert í skjól einhvers staðar.“

Í vor var reglum um strandveiðar breytt þannig að menn geta sagt sig úr kerfinu fram að 20. hvers mánaðar, og gildir það þá frá næstu mánaðamótum. Hrafn segir þá breytingu tvímælalaust hafa verið til bóta.

„Mér heyrist á einhverjum að þeir ætli að nýta þennan möguleika, og fari þá bara að veiða ufsa eða einhvern kvóta, eða eitthvað annað. Margir hafa líka hætt snemma á strandveiðunum því oft hefur ágúst verið gríðarlega lélegur mánuður. Menn nenna ekki einu sinni að róa þá.“

Þrettán á veiðum
Hrafn segir að strandveiðibátar í Vestmannaeyjum séu þrettán talsins.

„Þeim hefur heldur verið að fjölga bátunum. Þetta hentar ágætlega fyrir uppsjávarsjómenn hérna sem eru á þessu, en smábátaútgerð hérna er annars nánast lögst af. Það eru ekki skráð nema 160 þorskígildi á smábáta í Vestmannaeyjum, þannig að þetta eru mikið orðið bara hobbíbátar.“

Eitt af því sem hefur verið að hrella smábátasjómenn undanfarið er að kvóti hefur verið illfáanlegur.

„Við höfum oft getað leigt kvóta yfir veturinn, en það var bara algjör þurrð á markaðnum núna. Ég fullyrði að þar sé einhver markaðsbrestur vegna þess að ef markaðslögmálin væru virk þá ættu framboð og eftirspurn að leita jafnvægis. En það gerðist ekkert þótt verðið væri búið að hækka úr 100 krónum í 200 krónur, þá var það ekki nóg. Þannig að það er einhver íhlutun sem verður til þess að þetta gerist. Þú færð bara ekki kvóta.“

Sjálfur er Hrafn menntaður skipstjórnarmaður, var á Herjólfi um skeið og mikið á uppsjávarskipum og trollbátum. Síðar sneri hann við blaðinu, fór í skóla og starfar nú á Þekkingarsetri Vestmannaeyja þar sem hann er nýsköpunar- og þróunarstjóri.

„Það er alveg feykilega skemmtilegt að hafa þetta á kantinum,“ segir hann um strandveiðarnar.