laugardagur, 15. ágúst 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð grásleppuveiði sunnan Snæfellsness

15. apríl 2014 kl. 12:16

Grásleppa

Betri afli en í fyrra, segir skipstjórinn á Kidda RE 89

Upphaf grásleppuveiða í Faxaflóa lofar góðu þegar aflabrögð eru annars vegar. „Það er mikið betri grásleppuveiði hér sunnan Snæfellsness í ár heldur en var í fyrra. Við erum með netin hér inn af Arnarstapa, inn með ströndinni. Í dag fengum við tvö og hálft tonn af grásleppu. Í gær voru það þrjú tonn og hið sama í fyrradag,“ segir Arnar Kristinsson skipstjóri og útgerðamaður Kidda RE 89 í viðtali við vef Skessuhorns. 

Þeir róa tveir saman á Kidda RE. „Við erum búnir að vera á grásleppuveiðum í eina viku. Það hefur gefið til róðra alla vikuna þannig að við erum búnir með sex daga af þeim 32 sem við megum stunda grásleppuveiðar í ár,“ sagði Arnar. Netin sem Kiddi RE er með eru alls 7.500 metrar á lengd. „Þetta er það sem reglugerðin leyfir í ár. Alls eru þetta 111 net hjá okkur.“