laugardagur, 18. janúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð loðnuveiði norskra skipa við Ísland

2. febrúar 2015 kl. 16:17

Norski loðnubáturinn Endre Dyroy landar á Fáskrúðsfirði. (Mynd: Óðinn Magnason)

Veiddu um 25 þúsund tonn af loðnu í síðustu viku. Verðið lækkar aðeins vegna meira framboðs.

Í vikulegum pistli um gang uppsjávarveiða á vef norska síldarsamlagsins má lesa að norsku loðnuskipin á Íslandsmiðum hafi veitt vel í síðustu viku. Hins vegar hafi engin skip haldið af stað til veiða á loðnu í Barentshafi.

Þrátt fyrir óhagstætt veður við Ísland í síðustu viku náðu norsku skipin að veiða 25 þúsund tonn af loðnu. Stærð loðnunnar var að meðaltali 40 til 46 stykki í kílóinu.

Af þessum afla var 9.360 tonnum landað til manneldisvinnslu á Íslandi. Um 15.400 tonn voru melduð sem hráefni í mjöl- og lýsisvinnslu og var þeim afla bæði landað í Noregi og á Íslandi.

Á vef síldarsamlagsins kemur fram að verð á loðnu til manneldisvinnslu hafi verið frá 2,77 norskum krónum á kíló og upp í 3,06 krónur í síðustu viku. Verð á loðnu sem fór í mjöl og lýsi hafi verið á bilinu 2,65 til 2,99 krónur á kíló. Meðalverð á loðnu í mjöl og lýsi var 2,88 krónur á kíló (49,5 ISK) en til manneldis 2,94 krónur (50,6 ISK). Verðið hefur lækkað og skýringin er sögð sú að meiri afli hafi borist á land. Íslensku verksmiðjurnar bjóði ekki í loðnu af norskum skipum þegar þær hafi nægilegt hráefni frá íslenskum skipum.