mánudagur, 14. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góð síldveiði fyrir austan land

11. september 2012 kl. 09:19

Síld.

,,Síldin er fín og af góðri stærð og makríll hefur ekki verið með í aflanum“

 

,,Við vorum að ljúka við seinna holið með Ingunni AK og erum komnir með hátt í 600 tonn af síld og nú verður stefnan tekin á Vopnafjörð. Það var kaldaskítur hér í gærkvöldi en frá því í nótt og í allan dag hefur verið blíðskaparveður hjá okkur. Við erum hér í miðri lægðarmiðjunni og njótum þess greinilega.“

Þetta sagði Stefán Geir Jónsson, skipstjóri á Lundey NS, er rætt var við hann á vef HB Granda seinnipartinn í gær en þá var Lundey í utanverðu Glettinganesgrunninu eða um 65 sjómílur austur af Vopnafirði. Að sögn Stefáns Geirs hófst veiðiferðin í fyrradag og þá um kvöldið og nóttina voru tekin tvö hol með Faxa RE en uppsjávarveiðiskip HB Granda eru á tveggja skipa veiðum og saman með eitt stórt troll á síldveiðunum. Í gærkvöldi var þriðja holið klárað og þá fór Faxi til Vopnafjarðar með hátt í 600 tonn af síld. Ingunn kom í staðinn á veiðisvæðið og togaði á móti Lundey. Lokið var við fyrra holið í morgun og nú um miðjan dag fengust rúmlega 300 tonn af síld eftir um fimm tíma hol. 

,,Síldin er fín og af góðri stærð og makríll hefur ekki verið með í aflanum,“ segir Stefán Geir Jónsson.

Magnús Róbertsson, vinnslustjóri HB Granda á Vopnafirði, tekur undir með Stefáni Geir. Hann segir að uppistaðan í síldaraflanum sé síld af stærðinni +350 til 370 grömm. Öll síldin er unnin í svokölluð samflök fyrir frystingu.

Eiginlegar síldveiðar á vegum HB Granda hófust í síðustu viku eftir velheppnaða makrílvertíð og síðan þá hafa Lundey, Ingunn og Faxi öll komið einu sinni með síldarafla til vinnslu á Vopnafirði.