þriðjudagur, 24. nóvember 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góðar markaðshorfur í makríl

8. júlí 2019 kl. 13:45

Fallegur makríll rennur í lest. Mynd/Viðar Sigurðsson

Huginn og Kap á makrílveiðum við bæjardyrnar

 „Við erum mjög bjartsýnir á að markaðshorfur fyrir makrílafurðir séu bara bjartar,“ segir Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, Binni, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar í Vestmannaeyjum. Vinnslustöðin hefur þegar hafið frystingu á makríl og vann fyrsta skammtinn sem Huginn VE kom með að landi í byrjun vikunnar, alls um 200 tonn. Degi síðar kom Kap VE,  eitt þriggja uppsjávarskipa Vinnslustöðvarinnar, að landi með um 300 tonn.

„Við höfum heyrt að Norðmenn eigi einhverjar birgðar en ég held að það sé ekkert óselt af makríl hérna heima,“ segir Sigurgeir.

Heildarúthlutun á þessu ári er 140.000 tonn en makrílafli íslenskra skipa fór mest í 159.000 tonn árið 2017 og námu þá útflutningsverðmætin tæpum 11 milljörðum króna.

Vonast eftir hækkun

„Við höllumst að því að verðið lækki ekki frá því í fyrra og vonumst eftir hækkun. Þá er ég að tala um í erlendri mynt. Við erum að sjá hækkun í krónum til íslenskra sjómanna. Við seldum á síðasta ári langmest til Asíu sem er stöðugur og góður markaður. Við höfum selt til Kína og Japan, meðal annars til Okada Suizan.“

Okada Suizan er japanskt fyrirtæki sem er að hluta í eigu Vinnslustöðvarinnar og er m.a. með 50% markaðshlutdeild í frystri loðnu í Japan.

Árið 2014 fór um 20% af öllum frystum uppsjávarafurðum  Vinnslustöðvarinnar til rússneskra aðila. Yfir nóttu lögðust þessi viðskipti af með viðskiptabanni Rússa. Það var fyrirtækinu til happs að hafa ráðið japanska sölumann þegar þetta gerðist. 2015 var 3,2% af heildarsölu Vinnslustöðvarinnar  til Japans en var á síðasta ári komið í 11%. Þá hefur sala til Kína farið úr nánast engu í 5% af framleiðslu fyrirtækisins. Í Kóreu jókst salan úr 0,1% í rúmt 1% af heildarframleiðslunni.

Þessi mikla aukning í Asíu ásamt aukningu í Austur-Evrópu hefur vegið upp á móti töpuðum mörkuðum í Rússlandi í magni og Binni segir að verðin séu ekki lakari.

Bjartsýnir á framhaldið

Tilhneigingin síðustu ár hjá uppsjávarflotanum hefur verið að draga það að hefja makrílveiðar fram eftir sumri. Binni segir að Vinnslustöðin hafi sprungið á limminu að þessu sinni og ekki geta beðið að hefja veiðarnar. Þar spilar ekki síst inn í vonbrigðin yfir loðnubrestinum fyrr á árinu. Kap VE landaði um 200 tonnum á þriðjudag. Makríllinn veiddist rétt sunnan Eyja og segir Binni gott að taka þetta rétt við bæjardyrnar í litlum skömmtum og passa vel upp á gæðin.

„Þetta er góður júlímakríll. Það er dálítil áta í honum en þó ekki mikil. Frystigeymslan var orðin skröltandi tóm en nú fer það að breytast.“

Nýja frystigeymslan á Eiðinu, sem tekin var formlega í notkun í fyrra, tekur 14.000 tonn.

„Við erum bjartsýnir á framhaldið," segir Binni.