sunnudagur, 19. september 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góður afli hjá norskum selveiðiskipum

24. maí 2013 kl. 12:49

Selveiðimenn á Havsel

Fjögur skip veiddu samtals 16.000 vöðuseli.

Fjögur norsk skip tóku þátt í selveiðum á nýloknu veiðitímabili í Vesturísnum svokallaða, sem er svæðið austan Grænlands og djúpt norðan Íslands. Þau veiddu samtals 16.000 vöðuseli. 

Mestan afla fékk Kvitungen frá Tromsö eða 5.400 dýr, Havsel frá Alta fékk 3.700, Meridian 3.400 seli og Kvitbjörn frá Tromsö 3.600 dýr. 

Veiðin í ár er góð miðað við undanfarin ár og slagar hátt í veiðina árið 2005 þegar veiddust 18.000 vöðuselir samtals í Vesturísnum og Austurísnum sem er selveiðisvæði í norðaustanverðu Barentshafi. Aukin eftirspurn er eftir lýsi sem unnið er úr selspiki enda talið meinholl og því hefur verð fyrir spikið farið hækkandi. 

Afkoman af selveiðunum í ár er talin bærileg en þessar veiðar eru styrktar af hinu opinbera og væru sennilega ekki stundaðar ef sá fjárstuðningur væri ekki fyrir hendi.