laugardagur, 19. júní 2021
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góður kolmunnaafli

10. maí 2016 kl. 09:00

Börkur á kolmunnaveiðum. (Mynd: Ólafur Óskar Stefánsson)

Á fjórum fyrstu mánuðum ársins hafa íslensk skip veitt 103.533 tonn af kolmunna

Fiskistofa hefur tekið saman  yfirlit yfir afla íslenskra skipa í deilistofnum fyrstu fjóra mánuði ársins. Hér er einkum um að ræða veiðar á kolmunna.

Á fjórum fyrstu mánuðum ársins hafa íslensk skip veitt 103.533 tonn af kolmunna.  Á sama tíma í fyrra var aflinn 55.486 tonn. Mestur afli á yfirstandandi vertíð er veiddur að venju í lögsögu Færeyja eða 96.958 tonn og í íslenskri lögsögu 5.202 tonn. Aflahæsta skipið í kolmunna á fjórum fyrstu mánuðum ársins er Börkur  NK með 12.494 tonn. Næst kemur Venus NS með 12.396 tonn.

Þegar horft er til aflabragða í kolmunna á ofangreindu tímabili síðastliðin ár þá kemst hann nærri metaflaárunum árin 2006 til 2009 þegar afli íslensku skipanna fór vel yfir 100 þúsund tonn. Til að mynda var hann 112 þúsund tonn árið 2009 og 130 þúsund tonn árið 2008.

Fjölmörg skip sem hafa verið á kolmunnaveiðum í voru hafa fengið umtalsvert magn af makríl í  flotvörpuna.  Meðal annars landaði Venus NS alls 424 tonnum af makríl úr túr undir lok mánaðarins og rúm 2 þúsund tonn af kolmunna.  Makrílafli íslenskra skipa er í aprílmánuði rúm 1.100 tonn og síldarafli úr norsk-íslenska stofninum var 2 tonn.