fimmtudagur, 12. desember 2019
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góður togaraafli þegar gefur

21. nóvember 2013 kl. 12:03

Gott hol á Bjarti NK. (Mynd: Þorgeir Baldursson)

Rysjótt tíðarfar að undanförnu hefur tafið veiðar á köflum.

Togarar Síldarvinnslunnar, Barði NK og Bjartur NK, hafa verið að veiðum í rysjóttu tíðarfari að undanförnu en afli hefur hins vegar verið góður þegar færi hefur gefist til veiða, að því er fram kemur á vef Síldarvinnslunnar. Frystitogarinn Barði kom til heimahafnar í Neskaupstað í fyrradag og var með blandaðan afla, alls 334 tonn upp úr sjó. Stærstur hluti aflans var ufsi og þorskur en einnig töluvert af gullkarfa og grálúðu. 

Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að þetta hafi verið mikill brælutúr og alls hafi skipið verið eina 5-6 sólarhringa í vari ýmist vegna veðurs eða bilunar. „ Við vorum að veiðum á Vestfjarðamiðum og lágum í tvo sólarhringa í vari undir Grænuhlíð í Ísafjarðardjúpi  og eins vorum við í höfn á Ísafirði í eina þrjá daga“, segir Bjarni Ólafur. „Hitt er annað mál að þegar við gátum verið að veiðum þá aflaðist vel og það er ekki undan neinu að kvarta hvað það varðar“.

Ísfisktogarinn Bjartur kom til Neskaupstaðar á mánudagskvöld með um 90 tonn en aflinn var mest þorskur. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að veður hafi ekki truflað veiðar í þessum túr en að undanförnu hafi veðurfarið þó verið leiðinlegt. „Við fórum ekki langt og tókum þorskinn í Seyðisfjarðardýpinu eins og við höfum gert í undanförnum túrum“, segir Steinþór. „Aflabrögð hafa verið góð og það eru allir hressir og kátir um borð“.