mánudagur, 1. júní 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Gögnum safnað um loðnugöngurnar

Guðsteinn Bjarnason
21. mars 2020 kl. 09:00

Kap VE við bryggju á Akureyri í stuttu uppliti í rannsóknaleiðangrinum sem nú stendur yfir. Mynd/Þorgeir Baldursson

Loðna sást í hrygningu undir Eyjafjöllum. Einnig við Reykjanesið og svo er loðna í Húnaflóa

Kap VE, loðnuskip Vinnslustöðvarinnar í Eyjum, hélt af stað í loðnuleiðangur í síðustu viku með rannsóknarmenn Hafrannsóknastofnunar.

Hefðbundnum stofnmælingarleiðöngrum stofnunarinnar var þá lokið, en útgerðarfyrirtækin féllust á að taka á sig kostnað vegna skips og áhafnar gegn því að ríkið greiddi laun hafrannsóknafólksins.

Birkir Bárðarson leiðangursstjóri segir að nokkuð hafi fundist af loðnu, bæði fyrir sunnan land og norðan, en fátt nýtt sé að gerast og loðnan ekki í því magni sem menn hefðu helst viljað sjá.

„Við byrjuðum fyrir sunnan og sáum undir Eyjafjölum að þar var loðna í hrygningu. Við skoðuðum hana aðeins og tókum sýni,“ segir hann. „Það var nú ekkert mikið magn, ekki á þeim skala sem við hefðum viljað sjá. En hún var þarna.“

„Svo var aðeins líf þarna við Reykjanesið, í sandvíkum þar og þar í kring. Við skoðuðum líka fyrir Vesturlandi og sáum ekki mikið þar.“

Styttra komin fyrir norðan

Að því búnu var haldið norður fyrir land og þar rákust menn á loðnu inni á Húnaflóa.

„Við skoðuðum hana og tókum sýni. Hún var styttra komin en loðnan fyrir sunnan,“ sagði Birkir og sagði hafið þarna aðeins kaldara heldur en fyrir sunnan land.

„Við náðum að gera Húnaflóanum skil og hrökkluðumst svo inn á Eyjafjörð vegna veðurs. Þar kvörðuðum við mælana hjá okkur. En nú erum við á leiðinni í Þistilfjörð og ætlum að skoða þar og fara svo til baka vestur með Norðurlandinu,“ sagði hann þegar Fiskifréttir náðu tali af honum í gærmorgun.

Þessi aukaleiðangur, sá fjórði á árinu, er farinn til að fylgja eftir stofnmælingunni í janúar og febrúar. Birkir segir að undanfarin ár hafi ekki verið farið í eftirfylgd af þessu tagi, og hann reiknar með að niðurstöðurnar geti orðið fróðlegar.

Greina upprunann eftir svæðum

„Við munum skoða ýmsa hluti, bæði hvað er að gerast í framvindu hrygningargöngunnar og reyna líka að átta okkur á hvar hrygningarsvæðin eru og hvort það sé eitthvað nýtt að gerast í göngunni. Við erum að skoða hvort það komi inn einhver vestanganga eða hvort einhverjir óvæntir atburðir verði, en höfum nú ekki séð merki um slíkt ennþá.“

Þegar leiðangrinum lýkur verður farið í að skoða nánar þau sýni sem tekin eru, og Birkir telur víst að þær upplýsingar sem fást muni gagnast til framtíðar.

„Við erum að skoða hver gæti verið uppruninn á loðnunni sem er að hrygna á hverju svæði. Við viljum líka skoða efnasamsetningu í kvörnunum á loðnunni og meta út frá því hvort hún hafi hugsanlega alist upp á sama svæði og hún er að hrygna á. Við munum líka gera erfðagreiningu á loðnunni til að sjá hvort það sé munur á milli svæða í erfðasamsetningu.“