fimmtudagur, 20. febrúar 2020
 
TölublöðVenjuleg útgáfa

Góður afli í netaralli

7. maí 2010 kl. 15:42

Nýlega er lokið árlegri rannsókn Hafrannsóknastofnunarinnar á hrygningarslóð þorsks, s.k. netaralli. Afli var góður eins og við var búist en tiltölulega mikið er nú af stórum þorski í stofninum.

Þorskafli var þó talsvert minni í ár eða um 490 tonn á móti tæpum 600 tonnum í fyrra. Góð veiði var á flestum svæðum fyrir vestan og sunnan land. Kom Breiðafjörðurinn best út og fengust þar um 125 tonn af þorski í 50 lögnum sem er talsvert minna en í fyrra en þá fengust um 180 tonn. Aflinn í netarallinu hefur verið góður í fjögur ár eða allt frá árinu 2007.

Um 40 til 50 trossur voru lagðar á hverju rannsóknarsvæði og fer fjöldi eftir stærð þeirra og er þeim dreift innan svæða á helstu hrygningarslóðum þorsks.

Úrvinnsla gagna er á frumstigi, en fyrstu niðurstöður munu liggja fyrir í lok maí.

Markmið verkefnisins er að safna upplýsingum um aldurs- og lengdar- / þyngdarsamsetningu hrygnandi þorsks, kynþroska, og um vöxt á helstu hrygningarsvæðum þorsks. Einnig að meta árlega magn kynþroska þorsks er fæst í þorskanet á hrygningarstöðvum og breytingar í gengd hrygningarþorsks á mismunandi svæðum.

Sex bátar tóku þátt í netarallinu. Saxhamar SH var í Breiðafirði, Þórsnes II SH í Faxaflóa, Kristbjörg ÁR á svæðinu frá Reykjanesi að Þrídröngum, Friðrik Sigurðsson ÁR frá Þrídröngum að Skeiðarárdjúpi og Hvanney SF frá Meðallandsbugt að Hvítingum og Þorleifur EA á norðurland, frá Húnaflóa að Langanesi.